„Kemur mér ekkert á óvart lengur“

Austurgata 36 í Hafnarfirði.
Austurgata 36 í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert

„Ég sé ekki betur en að þetta séu eitt til fjögur ár þangað til við getum farið að byggja,“ segir Ingvar Ari Arason en hann og eiginkona hans misstu aleiguna eftir að upp komst um veggjatítlu og myglu í húsi þeirra fyrir tæpu ári síðan.

Í október í fyrra fengu þau vilyrði fyrir því að byggja 150 til 180 fermetra steinhús í stað bárujárnshússins á Austurgötu 36 í Hafnarfirði sem var dæmt ónýtt í apríl í fyrra.  

Að sögn Ingvars Ara fengu þau í framhaldinu leyfi til að rífa húsið en það var dregið til baka í febrúar síðastliðnum eftir að athugasemdir bárust.

Umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðar mælti með að fengið yrði álit fleiri og óháðra ráðgjafa á því hvort húsið sé í raun ónýtt eða hvort hægt sé að bjarga því frá niðurrifi. Minjastofnun gerði ekki athugasemdir við niðurrif hússins.

Ingvar Ari á von á því að leyfið til að rífa húsið komi á endanum en fyrst þarf að samþykkja allar teikningar.

Húsið við Austurgötu 36 í Hafnarfirði, sem dæmt var ónýtt …
Húsið við Austurgötu 36 í Hafnarfirði, sem dæmt var ónýtt í apríl 2017 vegna veggjatítla og myglu. mbl.is/Eggert

Margar geðþóttaákvarðanir

Hann furðar sig á seinagangi bæjaryfirvalda í Hafnarfirði vegna málsins. „Mér finnst það svolítið sérstakt að það skuli taka tvö ár að fá leyfi til að byggja húsið og síðan skuli það taka eitt til eitt og hálft ár að byggja húsið. Ég næ þessu ekki. Fyrir mér er þetta miklu einfaldara,“ segir hann.

„Það ótrúlega mikið af geðþóttaákvörðunum fólks sem breytir skoðunum sínum hingað og þangað. Þegar ég er kominn með stimplaðar teikningar og byggingarleyfi get ég sagt hvenær þetta er búið. Það kemur mér ekkert á óvart lengur, ekki neitt.“

Ingvari Ari Arason og eiginkona hans Anna Gyða Pétursdóttir hafa …
Ingvari Ari Arason og eiginkona hans Anna Gyða Pétursdóttir hafa staðið í ströngu upp á síðkastið. Ljósmynd/Aðsend

Málið ekki farið rétta leið í kerfinu

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti lagfærðan uppdrátt deiliskipulags vegna hússins á fundi sínum í gær.

Fulltrúar Bjartrar framtíðar í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðarbæjar áréttuðu hlutverk ráðsins á fundinum. Töldu þeir framtíðarsýn bæjarins vera veika ef rífa eigi öll hús þar sem upp koma veggjatítlur eða mygluvandamál. Mikilvægt sé að skipulags- og byggingayfirvöld séu með í slíkum málum frá upphafi.

„Þetta mál hefur að okkar mati ekki farið rétta leið í kerfinu þar sem að bæjarráð ákveður að styrkja niðurrif áður en ljóst var hvað ætti að koma í staðinn og án þess að gerður væri heildstæður samningur við eigendur um lausn á þeirra málum,“ sögðu fulltrúar Bjartar framtíðar. 

„Mál sem þessi eru mikið tjón fyrir húseigendur og verulega óvissa á líf þeirra og framtíð. Fulltrúar BF óska því eftir því að Hafnarfjarðarbæ hafa frumkvæði að því að kortleggja þá ferla og þær leiðir sem hægt væri að fara - fyrir húsin og eigendur þeirra.Við eigum fjársjóð í okkar timburhúsabyggð sem við viljum halda í, varðveita og viðhalda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert