Landspítala falin ábyrgð á S-merktum lyfjum

Landspítalinn við Hringbraut. Spítalinn á að taka yfir umsjón með …
Landspítalinn við Hringbraut. Spítalinn á að taka yfir umsjón með S-lyfjum af Sjúkratryggingum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að færa fjárhagslega ábyrgð og umsýslu vegna S-merktra og leyfisskyldra lyfja frá Sjúkratryggingum Íslands til Landspítala. Í frétt sem birt er á vef Stjórnarráðsins segir að með þessu sé horft til þess að „fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á innleiðingu og notkun nýrra og dýrra lyfja í landinu fari betur saman.“

S-merkt lyf eru m.a. sérhæfð, dýr og vandmeðfarin lyf, sem notuð eru á sjúkrahúsum eða í tengslum við sjúkrahúslegu vegna sérhæfðrar meðferðar og er ávísun þeirra háð ströngum skilyrðum. Leyfisskyld lyf eru lyf sem eingöngu eru notuð í samræmi við klínískar leiðbeiningar og eru að jafnaði kostnaðarsöm og vandmeðfarin.

Tekur ákvörðun ráðherra mið af þeim áherslum sem fram koma í þingsályktun um lyfjastefnu til ársins 2022, þar sem fram kemur að styrkja eigi ferli ákvarðanatöku um notkun leyfisskyldra lyfja og vinna að bættu fyrirkomulagi á umsjón og eftirliti með afgreiðslu S-merktra og leyfisskyldra lyfja. Þannig að tryggt verði betur „að saman fari fagleg og fjárhagsleg ábyrgð með líkum hætti og annars staðar á Norðurlöndunum, einkum í Danmörku og Noregi.“

Hefur Landspítala verið falið að hefja undirbúning að þessari yfirfærslu í samráði við Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisstofnanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert