Setja upp nýja námsbraut

Margrét Sanders.
Margrét Sanders. Ljósmynd/Þórður Arnar

Samtök verslunar og þjónustu, SVÞ, í samstarfi við Tækniskólann hafa sett upp nýja námsbraut fyrir störf í verslun og þjónustu. Kennsla hefst næsta haust og verður lögð áhersla á stafrænar lausnir og færnisþjálfun.

Þetta kom fram í erindi Margrétar Sanders, formanns SVÞ, á ársfundi félagsins sem haldinn var í dag.

„SVÞ er búið að leggja áherslu á að auka framboð menntunar til að mæta áskorunum sem fylgja þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í samfélaginu vegna tækniframfara og breyttar neysluhegðunar fólks,“ sagði Margrét.

Ráðstefnan bar yfirskriftina „Framtíðin er núna!“ og á henni var horft til framtíðar og á þá áhrifavalda sem hafa áhrif á breytingar á straumum og stefnum hvað viðkemur verslun og þjónustu.

Ráðherra ferðamála, viðskipta- og iðnaðar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, opnaði dagskrá ráðstefnunnar, auk ráðherra og Margrétar Sanders fluttu Magnus Lindkvist, sænskur framtíðarfræðingur, og Lisa Simpsson, sérfræðingur hjá Deloitte, erindi. Fundarstjóri var Bergur Ebbi Benediktsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert