Starfsmaður borgarinnar gerði mistök

Mistök starfsmanns hjá Reykjavíkurborg leiddu til þess að tilkynning um …
Mistök starfsmanns hjá Reykjavíkurborg leiddu til þess að tilkynning um kynferðisbrot starfsmanns hjá Barnavernd Reykjavíkur barst ekki til stjórnenda. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Móttaka tilkynningar til Barnaverndar Reykjavíkur árið 2008 vegna gruns um kynferðisbrot starfsmanns skammtímaheimilis að Hraunbergi gagnvart börnum var ekki í samræmi við verkferla. Mistök starfsmanns hjá Reykjavíkurborg leiddu til þess að tilkynning um kynferðisbrot mannsins barst ekki til stjórnenda. Aðgerðaáætlun í tíu liðum hefur verið gefin út til að bregðast við og auka öryggi barna. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í úttekt innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á verkferlum og reglum er varða tilkynningar og ábendingar sem berast til Barnaverndar Reykjavíkur. Skýrslan var lögð fram á fundum borgarráðs og velferðarráðs í dag. Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Regína Ásvaldsdóttir, óskaði eftir úttektinni í framhaldi af máli stuðningsfulltrúa á skammtímaheimili við Hraunberg sem grunaður er um kynferðisbrot gegn börnum.

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að mistökin áttu sér stað hjá viðtakendum símtala um að bregðast ekki við upplýsingum um að sakborningur sé í vinnu hjá Reykjavíkurborg og starfi með ungmennum og hafa ekki skráð niður nafn hans og tilkynnt til stjórnenda.

Niðurstaðan er samt sem áður sú að verkferlar hjá Barnavernd og velferðarsviði Reykjavíkurborgar, um tilkynningar og ábendingar vegna barnaverndarmála, eru í samræmi við lög en að mistök hafi átt sér stað þegar ekki var brugðist við tilkynningu um meintan kynferðisbrotamann árið 2008.

Þá eru í úttektinni tilteknar ýmsar úrbætur sem gera megi, umfram lagaskyldu, til að bæta öryggi viðkvæmustu þjónustuþega borgarinnar.

Óska eftir 51,5 milljóna króna árlegri aukafjárveitingu

Í tilkynningu frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar kemur fram að sviðið tekur undir niðurstöður innri endurskoðunar borgarinnar og hefur sett saman aðgerðaáætlun í tíu liðum sem stuðla mun að auknu öryggi barna og bæta ráðningaferli innan sviðsins og Barnaverndar. Sérstakur verkefnisstjóri verður ráðinn til að hafa umsjón með innleiðingu þeirra verkefna sem ráðast þarf í.

Á fundi velferðarráðs í dag var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að vísa til borgarráðs tillögu um aukafjárveitingu upp á 39,3 milljónir kr. vegna aðgerðaáætlunarinnar fyrir árið 2018 eða 51,5 milljónir kr. á ársgrundvelli.

Í aðgerðaáætluninni eru eftirfarandi aðgerðir lagðar fram:

  1. Ráðningarferli styrkt með víðtækari öflun sakavottorða
  2. Rafrænn ábendingahnappur á vef borgarinnar
  3. Aukið öryggi barna með eflingu næturvakta í sólarhringsúrræðum
  4. Sérhæfð fræðsla til stjórnenda
  5. Skimun fyrir ofbeldi
  6. Efling mannauðsþjónustu velferðarsviðs
  7. Úttekt á skipulagi barnaverndarstarfs
  8. Kröfulýsingar fyrir sólarhringsúrræði Barnaverndar
  9. Áhættugreining samkvæmt ráðgjöf frá innri endurskoðun
  10. Ráðning á sérstökum verkefnastjóra til að innleiða aðgerðaáætlun
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert