„Það var bara allt í blóði“

Alda Steingrímsdóttir ók með son sinn á slysadeild í gær …
Alda Steingrímsdóttir ók með son sinn á slysadeild í gær . Ljósmynd/Aðsend

„Hann er að hoppa þarna og þegar hann er búinn í heljarstökkinu þá skýst hann með höfuðið undir dýnuna og klemmist á milli gorma,“ segir Alda Steingrímsdóttir. „Það var bara allt í blóði“.

Þarna lýsir Alda myndbandi sem hún setti á Facebook-síðu sína af því þegar 12 ára sonur hennar hlaut djúpan skurð á höfði og var saumaður fimm sporum á slysadeild eftir óhapp seinnipartinn í gær í trampólíngarðinum Skypark.

Sonur hennar var í garðinum í fyrsta sinn ásamt vini sínum. Hringt var í Öldu vegna slyssins eftir að hún bað starfsmann að fyrra bragði um að taka niður símanúmerið sitt ef eitthvað kæmi upp á. Brá henni að vonum mikið þegar hún fékk fregnirnar.

Hún segir það hafa verið heppilegt að sjúkraflutningamaður sem var á staðnum með dóttur sinni hafi tekið málin í sínar hendur og bundið um höfuðið á drengnum.

Alda keyrði son sinn á slysadeildina og eftir þriggja tíma bið hlaut hann loksins aðhlynningu.

„Hann er ótrúlega sterkur. Hann er bara með höfuðverk núna en hann var rosalega þreyttur eftir þetta í gær. Hann var alveg búinn á því og ætlar aldrei þarna aftur.“

Alda bætir við að læknirinn sem meðhöndlaði drenginn hafi sagt að slys af þessu tagi hafi verið mörg upp á síðkastið.

Sjá má myndbandið í meðfylgjandi færslu:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert