„Þetta er keppni í heilbrigði“

Óli var heiðraður í gær fyrir að hafa gefið blóð …
Óli var heiðraður í gær fyrir að hafa gefið blóð 175 sinnum.

„Þetta er keppni í heilbrigði. Sumir fara til læknis reglulega og fá staðfestingu á því, en ef þú gefur blóð og færð að gefa blóð þá ertu heilbrigður, líkamlega allavega,“ segir Óli Þór Hilmarsson blóðgjafi sem tók við viðurkenningu úr hendi heilbrigðisráðherra í gær fyrir að hafa gefið blóð 175 sinnum.

Óli segir gaman að fá svona viðurkenningu, sérstaklega af því hún er jafnframt staðfesting á líkamlegu heilbrigði hans.

Blóðgjafafélag Íslands veitir blóðgjöfum viðurkenningar þegar þeir ná ýmsum áföngum. Ein viðurkenningin er veitt við 175. gjöfina og þá er ráðherra fenginn að afhenda viðurkenninguna. „Enda nýtur hann þess best og hans ráðuneyti, því blóðið er allt saman gefið til spítalans,“ segir Óli.

Á sama tíma og félagið heiðraði Óla voru einnig heiðraðir tveir einstaklingar sem hafa gefið blóð 200 sinnum eða oftar. Annar þeirra er Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. „Það merkilega er að við Ólafur Helgi erum náfrændur, komnir frá sama litla bænum, Miðvík í Aðalvík,“ segir Óli hlæjandi. „Þetta er svolítið skrýtið. Algjör tilviljun auðvitað.“

Fór með félögunum í Iðnskólanum í fyrsta skipti

Óli telur að það séu um 40 ár síðan hann gaf fyrst blóð. Hann var þá í Iðnskólanum þar sem hraustir nemendur voru hvattir til að gefa blóð. „Það var almenn vakning hjá iðnaðarmönnum að það væri skylda okkar sem værum hraustir að gefa blóð. Það var kynnt í Iðnskólanum að þeir sem gætu ættu að fara að gefa blóð. Það var virkilega mælst til þess.“

Óli svaraði þá kallinu, líkt og allur bekkurinn, og það varð fljótt að reglubundinni rútínu hjá honum að fara í Blóðbankann og leggja inn. „Svo gerðist það að ég varð blóðflögugjafi. Maður getur verið margskonar blóðgjafi. Þess vegna erum við að horfa upp á svona háar tölur, eins og 175 og 200 í dag. Við getum gefið miklu oftar.“

Karlmaður má gefa blóð á þriggja mánaða fresti en sem blóðflögugjafi getur Óli farið á sex vikna fresti. „Þá gefur maður blóðflögur og fær allan blóðvökvann aftur. Svo nýta þeir blóðflögurnar beint inni á spítalanum í lækningaskyni, í krabbameinslækningum og fleira. Blóðflögur úr einum gjafa eru á við blóð úr mörgum gjöfum,“ útskýrir hann. En úr blóði hefðbundinna blóðgjafa eru unninn blóðvökvi og önnur efni.

Markmiðið að ná 200

Hann segir það alls ekki hafa verið kappsmál hjá sér að ná þessum áfanga. Fyrst og og fremst er um rútínu að ræða. „Nú er bara markmiðið að vera nógu heilbrigður til að ná 200,“ segir hann og hlær.

Óli segir mikilvægt að fjölga blóðgjöfum enda sé aðgerðum hér á landi alltaf að fjölga. Þá segir hann það ánægjulega þróun að konum sem gefa blóð fari fjölgandi. En konur mega ekki gefa blóð jafn oft og karlmenn og stór hópur dettur út í lengri eða skemmri tíma vegna barneigna.

Blóðgjafafélag Íslands var stofnað árið 1981 til að halda utan um hagsmuni blóðgjafa. Það eru engin félagsgjöld og blóðgjafi fær engan ávinning af því að gefa blóð. „Ef við lítum til landanna í kringum okkur þá er veittur styrkur inn í blóðgjafafélagið með hverjum blóðgjafa sem nýttur er til að afla nýrra blóðgjafa. Þessu hefur aldrei tekist að koma á á Íslandi og ég veit að þessar viðurkenningar eru veittar með styrkjum frá hinum og þessum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert