Tískustjarna hverfur á braut

Til Audrey með ástarkveðju. Givenchy mætti á sýninguna To Audrey …
Til Audrey með ástarkveðju. Givenchy mætti á sýninguna To Audrey With Love, sem haldin var í Gemeentesafninu í Haag í Hollandi árið 2016. AFP

Le Grand Hubert, eða Hubert hinn mikli, var hann oft kallaður, enda hátt í tveir metrar á hæð og býsna myndarlegur. Fágaður þótti hann líka, annálaður snyrtipinni og flottur í tauinu til hinsta dags. Franski tískuhönnuðurinn Hubert de Givenchy lést í vikunni, 91 árs gamall eftir langan og farsælan feril. Trúlega er hann einna frægastur fyrir að hafa hannað litla, svarta kjólinn, sem Audrey Hepburn skrýddist í kvikmyndinni Breakfast at Tiffany's árið 1961.

Samband þeirra Hepburn varði í fjóra áratugi, en hún lést 1993. Hún varð honum innblástur og átti stóran þátt í því að nafn hans festist í sessi í tískuheiminum, kvikmyndum – og jafnvel mannkynssögunni, eins og sumir vilja meina. Dýrðlegur klæðnaður Audrey Hepburn í Funny Face frá 1957 og How to Steal a Million frá 1966 er mörgum ógleymanlegur.

Frægir viðskiptavinir eins og Grace Kelly, Elizabeth Taylor og aðrar kvenkyns goðsagnir hvíta tjaldsins þóttu af öðrum bera í klæðum frá Givenchy og sömuleiðis Jackie Kennedy, forsetafrú Bandaríkjanna, sem var ókrýnt tískutákn sjöunda áratugar liðinnar aldar.

Ekkert lát hefur verið á aðdráttarafli Givenchy-tískumerkisins í áranna rás. Skemmst er að minnast fatnaðar Chadwick Bosemans, stjörnunnar í splunkunýrri mynd, Black Panther, á rauða dreglinum við Óskarsverðlaunaafhendinguna, og annarrar að nafni Gal Gadot, sem lék Wonderwoman í fyrra, og þykir alltaf nokkuð smart.

Sjá umfjöllun um Givenchy í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert