230 sóttu um störf við fangavörslu

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Hari

Alls sóttu 230 manns um afleysingastörf við fangavörslu hjá Fangelsismálastofnun í sumar. Þar af sótti um það bil helmingurinn um að starfa í nýja fangelsinu á Hólmsheiði. Þetta segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.

„Það er greinilega aukinn áhugi á þessum málefnum í samfélaginu,“ segir Páll, sem hefur aldrei kynnst öðrum eins áhuga.

Flestir þeirra sem sóttu um eru háskólanemar, mestmegnis úr lögfræði, sálfræði og félagsráðgjöf. „Þetta eru einstaklingar sem hafa væntanlega áhuga á að bæta við þekkingu sína og reynslu.“

Aðspurður segir hann ekki ljóst hversu margir afleysingamenn verði ráðnir í sumar. Það fari eftir fjármagninu sem fæst frá yfirvöldum.

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði. mbl.is/Hari

„Gríðarleg breyting“

Fangelsismálastofnun greindi frá því á Facebook-síðu sinni í morgun að sprenging hefði orðið hvað varðar fjölda fanga í gæsluvarðhaldi, eða rúmlega 100%.

„Þetta er gríðarleg breyting frá síðustu árum,“ segir Páll og nefnir að 18 fangar hafi verið í gæsluvarðhaldi síðustu þrjú ár, að meðaltali. Þar á undan hafi fangarnir verið á bilinu 10 til 12 á ári.

„Það er alveg ljóst að það var bráðnauðsynlegt að byggja þetta fangelsi og það er bráðnauðsynlegt að manna það vel,“ bætir Páll við og á þar við fangelsið á Hólmsheiði.

Hann segir að það liggi í hlutarins eðli að þegar hluti af réttarvörslukerfinu vinni meira skili það sér í fleiri verkefnum hjá Fangelsismálastofnun, síðasta hlekknum í keðjunni.

mbl.is/Hari

Fangelsið verði fullmannað síðar á árinu

Spurður hvort stofnunin ráði við aukin verkefni segir hann: „Það er mikill erill og mikið álag en við höfum þetta verkefni og við munum sinna því.“

Hann segir yfirvöld sýna stöðunni fullan skilning og gerir hann ráð fyrir því að fangelsið á Hólmsheiði verði mannað að fullu á síðari hluta þessa árs, um leið og fjármagn fæst til þess.

Rúmlega tuttugu manns starfa á Hólmsheiði og vonast Páll til að fjórum starfsmönnum til viðbótar að staðaldri verði bætt við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert