Aðgangur verði óháður aldri

Elliheimili.
Elliheimili. mbl.is/Árni Sæberg

Gildandi aldursmörk sem einskorða þjónustu dagdvalar og dvalarrýma við aldraða verða numin úr gildi samkvæmt nýju frumvarpi heilbrigðisráðherra. Aðgangur að þessari þjónustu verður bundinn við faglegt mat á þörf viðkomandi fyrir þessi úrræði. Ráðherra kynnti frumvarpið á fundi ríkisstjórnar í dag.

Greint er frá málinu á vefsíðu heilbrigðisráðuneytisins. Þar kemur fram að nokkuð sé um að óskað sé eftir undanþágum frá aldursmörkum laganna vegna fólks yngra en 67 ára sem þarfnast þjónustu í dagdvöl eða dvalarrými en fyrir því er ekki stoð í lögum. 

Verði frumvarpið samþykkt opnast fyrir aðgang yngra fólks að þessari þjónustu að undangengnu faglegu mati á heilsufari þess og verður jafnframt forgangsraðað eftir því.

Samkvæmt gildandi lögum um málefni aldraðra sjá færni- og heilsumatsnefndir um mat á þörf fólks fyrir búsetu á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Aðgangur fólks að hjúkrunarrýmum er ekki bundinn við aldur, heldur er einungis horft til niðurstöðu mats nefndanna á þörf viðkomandi fyrir þessa þjónustu. Með áformuðum lagabreytingum verður hið sama látið gilda um dvalarrýmin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert