Loka svæði meðfram Fjaðrárgljúfri

Frá Fjaðrárgljúfri.
Frá Fjaðrárgljúfri. Ljósmynd/Gísli Sigurðsson

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að loka svæði meðfram Fjaðrárgljúfri. Fjöldi ferðamanna hefur komið að gljúfrinu að austan í hlýindum og mikilli vætutíð en það hefur gert það að verkum að álag á göngustíg og umhverfi hans er gríðarlegt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Umrætt svæði er nr. 703 á náttúruminjaskrá en lokunin  er gerð bæði af öryggisástæðum og til að vernda gróður í umhverfi göngustígsins.

Stefnt er að því að endurskoða lokunina eigi síðar en innan tveggja vikna eða ef ástand breytist. Lokunin er samkvæmt 25 gr. laga um náttúruvernd.

mbl.is