Ráðherrar leituðu ráða vegna boðsferða

Í svari ráðherra kemur ekki fram hvaða ráðherrar leituðu til …
Í svari ráðherra kemur ekki fram hvaða ráðherrar leituðu til ráðuneytisins vegna fyrirhugaðra boðsferða. mbl.is/Eggert

Á síðustu fimm árum hafa ráðherrar í ríkisstjórn leitað sex sinnum til forsætisráðuneytisins í þeim tilgangi að fá ráðleggingar um túlkun siðareglna. Tvö tilvikanna tengdust fyrirhuguðum boðsferðum sem ráðherrar fengu boð í.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata um hversu oft forsætisráðherra eða ráðuneyti hans hefur gefið öðrum ráðherrum ráðleggingar um túlkun siðaregla ráðherra. Þingmaðurinn óskaði eftir árlegum fjölda tilvika frá 2013 til dagsins í dag.

Björn Leví hef­ur verið afar iðinn á yfirstandandi þingi og hefur hann alls lagt fram 72 fyr­ir­spurn­ir, eða fjórðung allra fyr­ir­spurna. Sá sem næst­ur kem­ur hef­ur lagt fram 17.

Frétt mbl.is: Einn þingmaður með 72 fyrirspurnir

Fjögur tilvikanna komu upp á síðasta ári, þegar tvær ríkisstjórnir voru myndaðar, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar annars vegar og ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hins vegar. Eitt tilvik kom upp árið 2014 og annað 2015 þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var við völd.

Í svari ráðherra kemur ekki fram hvaða ráðherrar leituðu til ráðuneytisins. Þá kemur heldur ekki fram í svarinu hvaða ráðleggingar það voru sem ráðherrarnir fengu né að hverju álitamálin sneru.

Líkt og fyrr segir tengdust tvö tilvikanna fyrirhuguðum boðsferðum. Í svari vísar forsætisráðherra til e-liðar 3. greinar siðareglna þar sem segir að ráðherra þiggi að jafnaði ekki boðsferðir af einkaaðilum nema opinberberar embættisskyldur séu hluti af dagskrá ferðarinnar.

Þrjú af tilvikunum sex tengdust óskum um samþykki fyrir því að ráðherra sinnti öðrum verkefnum . Eitt tilvik tengdist annarri ráðgjöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert