Segja enga þörf á kyrrsetningu

Hljómsveitin Sigur Rós í Los Angeles.
Hljómsveitin Sigur Rós í Los Angeles.

Sigur Rós segist hafa fullan skilning á rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattamálum hljómsveitarinnar en henni þykir miður að embættið hafi krafist kyrrsetningar á eignum þeirra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sigur Rós.

Þar segir að meðlimir sveitarinnar hafi frá upphafi verið samstarfsfúsir við rannsókn málsins og að engin þörf hafi verið á kyrrsetningu eigna þeirra.

Tilkynningin í heild sinni:

„Sigur Rós hafa ekkert að fela og hafa veitt allar upplýsingar til skattrannsóknarstjóra (SRS) til að greiða úr þeim málum sem þar eru til rannsóknar. Endurskoðunarfyrirtækið PWC á Íslandi sá um framtalsgerð og skattskil Sigur Rósar frá upphafi ferils þeirra og þangað til ársins 2012, þegar endurskoðandi hljómsveitarinnar innan PWC  stofnaði sitt eigið endurskoðunarfyrirtæki, Rýni Endurskoðun. Síðla árs 2014 var hljómsveitinni tilkynnt að ekki hefði verið staðið rétt að framtalsskilum meðlima hennar á tímabilinu 2010-2014.

Ekki er ágreiningur um það af hálfu Sigur Rósar að framtalsgerð og skattskil hljómsveitarinnar hafi að hluta til ekki verið í réttu horfi á þessu tímabili. Þessi tilkynning kom hljómsveitinni í opna skjöldu enda stóðu meðlimir hennar í góðri trú um að rétt væri staðið að skattskilum þeirra og framtalsgerð af hálfu þess sérfræðings sem hljómsveitin hafði ráðið til að sjá um þessi mál. Þetta var Sigur Rós og meðlimum hennar mikil vonbrigði en alla tíð hafa meðlimir Sigur Rósar lagt áherslu á að rétt væri staðið að skattskilum þeirra hér á landi.

Hljómsveitin réð nýtt bókhaldsfyrirtæki, Virtus, í byrjun árs 2015 til að hefja ferli við að koma skattskilum og framtalsgerð hljómsveitarinnar í rétt horf í samræmi við lög og reglur. Sigur Rós hefur fullan skilning á rannsókn SRS en þykir miður að embættið hafi ákveðið að krefjast kyrrsetningar á eignum þeirra. Sérstaklega vegna þess að frá upphafi hafa meðlimir hljómsveitarinnar verið samstarfsfúsir við rannsókn málsins, veitt embættinu allar þær upplýsingar sem óskað hefur verið eftir og að engin þörf hafi verið á kyrrsetningu eigna meðlima Sigur Rósar. Þetta er í samræmi við skoðun lögfræðinga Sigur Rósar hjá LOGOS lögmannsþjónustu.“

mbl.is