Varað við skemmdum á slitlagi

Vegir eru auðir um allt sunnanvert landið. Varað er við talsvert miklum slitlagsskemmdum undir Eyjafjöllum, á Reynisfjalli og austur fyrir Kirkjubæjarklaustur. Verst er ástandið á kafla rétt austan við Klaustur.

Á Snæfellsnesi og í Dölum eru hálkublettir á fáeinum vegum. Eins eru víðast aðeins hálkublettir á Vestfjörðum. Verið er að opna veginn í Árneshrepp en þar er snjóþekja, samkvæmt frétt á vef Vegagerðarinnar.

Á Norðurlandi eru vegir víðast hvar greiðfærir en þó er hálka á fáeinum útvegum og hálkublettir. Snjóþekja er á Dettifossvegi. Vegir á Austurlandi eru ýmist auðir eða aðeins í hálkublettum. Autt er með ströndinni suður um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert