Endurkoma Don Cano

Jan Davidsson.
Jan Davidsson. Haraldur Jónasson/Hari

Það muna margir eftir tískumerkinu Don Cano sem kom fyrst á markað árið 1981 en vinsældir Don Cano-krumpu- og glansgallanna voru gríðarlegar á sínum tíma og má í raun segja að þessir eftirminnilegu gallar hafi gersamlega átt íslenskan markað. Nú er framleiðsla á merkinu hafin að nýju. 

Hugmyndasmiður Don Cano er Svíinn Jan Davidsson. Jan hefur einstakt auga fyrir hönnun og klæðskurði og hóf sinn feril til að mynda á hinni þekktu klæðskeragötu Lundúna, Savile Row, þar sem hann útbjó jakkaföt á kóngafólk og leikara áður en hann fluttist til Íslands og snéri tískunni, eins og hún þekktist, við.

Árið 1981 hóf Jan því framleiðslu á eigin merki sem bar heitið Don Cano sem einkenndist af sportlegum fatnaði. Don Cano náði gríðarlegum vinsældum hér á landi og víðar. „Don Cano varð ekki eingöngu vinsælt hér í landi heldur einnig í Noregi, til að mynda seldum við fyrir 30 milljónir norskra króna í heildsölu árið 1983, og í London þar sem vörumerkið var meðal annars selt í versluninni Harrods.“ Samhliða Don Cano vann Jan að ýmsum verkefnum víðs vegar um heiminn og hannaði meðal annars jakka fyrir New York-ballettinn og fatnað fyrir Ólympíuleikana.

Aðspurður hvað hafi orðið til þess að Don Cano hafi orðið svona vinsælt á sínum tíma svarar Jan: „Við vorum rosalega nýtt fyrirbæri. Ég hafði hjálpað fyrirtækjum að byggja upp merki og koma þeim á skrið þegar ég starfaði sem ráðgjafi svo ég vissi nokkurn veginn hvað virkaði. Þetta er ákveðinn hæfileiki og orka að ná að skapa þennan heim.“

Það var síðan fyrir fjórum árum að Jan ákvað að endurvekja Don Cano. „Mér fannst ég hálfpartinn hafa stungið af á sínum tíma og mér fannst Don Cano svolítið eiga það inni hjá mér að halda áfram,“ útskýrir Jan.

Don Cano var vinsælla en nokkuð sem hafði sést hér á landi fyrr eða síðar. „Þetta var risastórt. Nú er ég 73 ára gamall og get ekki hætt. Klæðskeri er alltaf klæðskeri og það er það sem ég er. Þó að ég hafi orðið verkfræðingur og ráðgjafi þá er grunnur minn alltaf klæðskurður. Ég vona líka að Karl Magnússon, fyrrverandi viðskiptafélagi minn frá dögum Don Cano, brosi frá himnum þegar hann sér hvað ég er að gera. Aldrei að vita hvort hann sé kannski með puttana í þessu líka.“

Nánar er rætt við Jan Davidsson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Don Cano, 2018.
Don Cano, 2018.
Don Cano, 1984.
Don Cano, 1984. Sigurgeir Sigurjónsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert