Hrókurinn sýnir listaverk frá Grænlandi

Hrafn Jökulsson forseti Hróksins.
Hrafn Jökulsson forseti Hróksins. mbl.is/Ómar

Í dag á milli kl. 14 og 16 er opið hús hjá Skákfélaginu Hróknum, Geirsgötu 11 við Reykjavíkurhöfn. Sýndar verða ljósmyndir, teikningar og listaverk frá síðustu ferð Hróksins til Kulusuk, fyrr í mánuðinum.

Hátíðin í Kulusuk var hluti af Polar Pelagic-hátíð Hróksins 2018. Sýndar verða myndir eftir Max Furstenberg, teikningar Ingu Maríu Brynjarsdóttur og afrakstur listsmiðju barnanna í Kulusuk. Hrafn Jökulsson forseti Hróksins, sem kenndi skák í ferðinni, segir frá þessum ævintýralega leiðangri.

Þá mun Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt sýna valda muni frá Grænlandi. Kristjana var eiginkona Jonathans Motzfeldt, fyrsta forsætisráðherra Grænlands, og sá Íslendingur sem best þekkir til meðal nágranna okkar fyrir vestan.

Næsti leiðangur Hróksins til Grænlands verður nú um páskana. Þá liggur leiðin til afskekktasta þorps Grænlands, Ittoqqortmitt í Scoresby-sundi, en þar hafa Hróksliðar haldið árlega hátíð í 12 ár. Skáklandnám Hróksins á Grænlandi hófst 2003 og því er nú fagnað fimmtán ára starfsafmæli.

Í næstu viku verður gengið formlega frá stofnun velferðarsjóðs fyrir börn í bænum Uummannaq á Grænlandi, þar sem í dag búa flestir þeir sem urðu að yfirgefa heimaslóðir sínar þegar flóðbylgja skall á eyjaþorpið Nuugaatsiag síðastliðið sumar. Fjórir fórust í flóðinu og ellefu hús eyðilögðust svo fólk snýr ekki aftur til búsetu í þorpinu í náinni framtíð. Höfuðstól sjóðsins mynda fjármunir úr söfnuninni Vinátta í verki, alls um 40 milljónir króna. Skákfélagið Hrókurinn undir forystu Hrafns Jökulssonar hafði forgöngu um söfnunina í félagi við Kalak, vináttufélag Íslands og Grænlands og Hjálparstarf kirkjunnar.

Fyrir nokkrum dögum færði Hrafn Önnu Kuitse Kuko, formanni Rauða krossins í Tasiilaq, persónulega gjöf, 75.000 danskar krónur, rúmar 1.240.000 íslenskar, til minningar um móður sína, Jóhönnu Kristjónsdóttur sem lést á síðasta ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert