Þrír fluttir með þyrlu á slysadeild

Jeppinn sem fór fram af hengjunni.
Jeppinn sem fór fram af hengjunni. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Þrír voru fluttir á slysadeild Landspítalans í Fossvogi með þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna slyss sem varð við Strýtur sunnan við Hveravelli þegar jeppi fór fram af hengju. 

Ekki er vitað um hversu alvarleg meiðslin eru.

Uppfært kl. 17.30:  

Fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg að óskað hafi verið eftir aðstoð vegna jeppa sem hafði farið fram af hengju við Strýtur sunnan við Hveravelli nálægt Kjalvegi.

Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Þrjár björgunarsveitir voru á svæðinu í æfingaferðum, og gat Neyðarlínan því óskað eftir aðstoð þeirra. Hópar frá þeim sveitum voru komnir fljótt á vettvang. 

Þrír voru slasaðir í bílnum og var óskað eftir þyrlu til að flytja fólkið af vettvangi.

Björgunarsveitarfólkið hlúði að þeim slösuðu og bjó um þá til flutnings með þyrlu Landhelgisgæslunar sem kom á vettvang á fjórða tímanum og fluttu fólkið í burtu.

Erlendir ferðamenn voru í jeppanum, að því er greint var frá útvarpsfréttum RÚV.

Tveir vélarvana bátar

Landhelgisgæslan fékk einnig tilkynningu um vélarvana 30 tonna bát í Faxaflóa upp úr klukkan hálfþrjú í dag en það tókst að gangsetja vélarnar og því þurfti Gæslan ekki að sinna honum.

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg kemur fram að björgunarsveitir hafi verið kallaðir út vegna tveggja vélarvana báta en í báðum tilfellum tókst áhöfn bátanna að leysa málið á farsælan hátt áður en björgunarbátar komu á vettvang og voru þær björgunarsveitir því afturkallaðar. Hinn báturinn sem um ræðir varð vélarvana á Seltjarnarnesi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert