Klappað fyrir Sigríði Andersen

Birgir Ármannsson og Sigríður Andersen á landsfundi.
Birgir Ármannsson og Sigríður Andersen á landsfundi. mbl.is/Eggert

Fyrirspyrjandi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins kaus að ljúka máli sínu í fyrirspurnartíma í morgun, þar sem sjálfstæðismenn gátu lagt fram munnlegar fyrirspurnir fyrir forystumenn flokksins, á því að þakka Sigríði Andersen dómsmálaráðherra fyrir störf hennar.

Fundarmenn svöruðu þökkum fyrirspyrjandans með lófataki fyrir dómsmálaráðherra. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók einnig upp hanskann fyrir Sigríði í setningarræðu sinni í gær og hrósaði henni fyrir störf hennar í ríkisstjórninni.

Sigríður fékk fyrirspurn á landsfundinum um málefni hælisleitenda og flóttamanna. Þar sagði hún að horfast yrði í augu við þann veruleika að stríð ættu sér stað í heiminum og efnahagsástandið væri víða bágborið þó enginn vildi vonandi að svo væri.

Fyrir vikið væri skiljanlegt að fólk leitaði að betra lífi fyrir sig og sína annars staðar og þar á meðal á Íslandi. Hingað kæmu hins vegar margir og sæktu um hæli sem uppfylltu ekki skilyrði þess að geta talist flóttamenn. Kæmu frá löndum sem teldust örugg.

Mikilvægt væri að hjálpa þeim sem þyrftu á því að halda í samræmi við þau lög og alþjóðlegar skuldbindingar sem væri fyrir að fara í þessum efnum en senda aðra úr landi sem uppfylltu ekki skilyrði þess að teljast flóttamenn og benda þeim á aðrar leiðir til þess að koma til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert