Réttarhöld í vændismálum verði opin

Ljósmynd/Árni Torfason

Snorri Birgisson, yfirmaður mansalsteymis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að opnun réttarhalda í vændismálum myndi hjálpa til í baráttunni gegn vændisstarfsemi. Þetta kom fram í máli hans í þættinum Víglínunni á Stöð 2 í dag.

Þáttastjórnandinn Höskuldur Kári Schram innti Snorra eftir því hvort hann væri fylgjandi því að réttarhöld í vændismálum verði opin og gerð opinber og að í niðurstöðu dómsmálanna kæmi fram hvaða einstaklingar þetta voru.

„Að mínu mati og ef við lítum til Norðurlandanna að þá er það þannig að nafnleyndin er ekki til staðar. Ef við ætlum að líta á þetta sem ákveðinn fælingarmátt að þá ætti nafnleyndin ekki að hvíla á þessum flokki vegna þess að þetta verður að hafa einhverja forvirkni, það er að segja að það að kaupa vændi sé ekki eftirsóknarvert. Það að vera kærður fyrir kaup á vændi er ekki eftirsóknarvert. Það þarf með ákveðnum hætti að spyrna við þessu þarna og þetta er fordæmi sem hefur verið sett og hefur ekki verið breytt. Þannig [að] það er rosalega erfitt að snúa til baka geri ég ráð fyrir en maður vonar náttúrulega,“ sagði Snorri í svari sínu.

mbl.is