Þyrla kölluð til vegna fjórhjólaslyss

Frá slysstaðnum.
Frá slysstaðnum. Ljósmynd/Landsbjörg

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á þriðja tímanum í dag vegna fjórhjólaslyss á Suðurnesjum.

Lögreglan á Suðurnesjum var fyrst á vettvang og óskaði eftir aðstoð þyrlunnar. Slysið átt sér stað á vegi sem liggur frá Suðurstrandavegi að Djúpavatni.

Ökumaður fjórhjólsins var fluttur með þyrlunni á Landspítalann í Fossvogi til aðhlynningar. Ekki er vitað um alvarleika áverka hans að svo stöddu.

Uppfært kl. 17:35: 

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg kemur fram að björgunarsveitin í Grindavík hafi verið kölluð út vegna fjórhjólaslyss á veginum að Vigdísarvöllum við Suðurstrandaveg rétt fyrir kl. 15 í dag. Björgunarsveitarfólk ásamt sjúkrabíl fór á vettvang, þar sem maður hafði velt fjórhjóli sínu og var slasaður.

Vegna ástands þess slasaða var ekki talið ráðlegt að flytja hann landleiðina og því var óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar. Viðbragðsaðilar hlúðu að hinum slasaða á meðan beðið var, en á þeim tíma var þyrla frá Landhelgisgæslunni að sinna útkalli á hálendinu. Önnur þyrla kom á vettvang um kl. 16 og var maðurinn fluttur af slysstað.

Uppfært kl. 18:14:

Sá sem slasaðist á fjórhjólinu er Íslendingur og eru áverkar hans ekki alvarlegir, að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert