Þarf að greiða banka 7 milljónir vegna húss á Flórída

mbl.is/Ófeigur

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness þar sem Sævari Jónssyni, kaupmanni og fyrrverandi fyrirliða landsliðsins í knattspyrnu, var gert að greiða Pillar Securitsation, banka í Lúxemborg, sjö milljónir króna vegna íbúðarhúss í Flórída.

Hæstiréttur staðfesti fyrir tveimur árum dóm Héraðsdóms Reykjaness þar sem Sævar var dæmdur í tólf mánaða fangelsi vegna hússins. Níu mánuðir dómsins voru skilorðsbundnir.

Í dómnum kemur fram að bankinn, sem er forveri Kaupþings, sló því föstu að Sævar hefði með háttsemi sinni, sem hann hefði þegar verið sakfelldur fyrir, valdið bankanum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti og ætti bankinn því rétt til skaðabóta úr hendi Sævars.

Húsið var keypt á 657 þúsund dollara árið 2007. Sævar var úrskurðaður gjaldþrota árið 2010. Eftir athugun skiptastjóra koma í ljós að 17 dögum áður en bú Sævars var tekið til gjaldþrotaskipta hafði hann og eiginkona hans afsalað fasteigninni til svissnesks félags fyrir tíu dollara. Sævar var stjórnarformaður í því félagi.

Sævar fór fram á sýknu á þeim forsendum að krafa bankans væri fyrnd en bæði héraðsdómur og Hæstiréttur höfnuðu kröfunni. Sævar var dæmdur til að greiða Pillar Securitsation rúmar sjö milljónir auk 700 krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert