Endurheimti forystuhlutverk sem höfuðborg

Eyþór Arnalds flutti ávarp á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.
Eyþór Arnalds flutti ávarp á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Annaðhvort verður haldið áfram með óbreytt ástand þar sem húsnæðisskortur, samgönguvandi og svifryk fá að dafna, eða Reykjavík endurheimtir forystuhlutverk sitt sem höfuðborg. Borg sem á að vera leiðandi á öllum sviðum í þjónustu við íbúa og fyrsti búsetukostur fyrir ungt fólk.“ Þetta sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í ávarpi sínu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll í dag.

Eyþór sagði að eftir átta ára valdatíð og sextán ára borgarfulltrúasetu Dags B. Eggertssonar væri komið að tímamótum. „Reykjavík er eftirsóknaverð ferðamannaborg með frábærum veitingastöðum og menningu. En í allri veislunni er eins og íbúarnir hafi hreinlega gleymst.“

Eyþór segir Reykjavík eiga að vera fyrsta búsetukost fyrir ungt …
Eyþór segir Reykjavík eiga að vera fyrsta búsetukost fyrir ungt fólk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann sagði að fólk hlyti að spyrja hvort fljótlegra væri að ferðast innan Reykjavíkur en fyrir fjórum árum, hvort auðveldara væri að kaupa eða leigja íbúð, hvort borgin vær hreinni, hvort til væru leikskólarými fyrir þá sem þyrftu, hvort ferðaþjónusta fatlaðra hafi verið áreiðanleg og hvort borgarbúar fái svör við erindum sínum. 

„Umboðsmaður borgarbúa tekur við kvörtunum og því þarf borgarstjóri ekki að svara þeim. Þannig kemur borgarstjóri sér undan því að veita borgarbúum áheyrn. Umboðsmaður borgarbúa hefur engin völd en það tekur hann 80 daga að jafnaði að fá svör frá skipulagssviði.“

Þessu sagði Eyþór Sjálfstæðismenn í meirihluta borgarstjórnar ætla að breyta.

„Eftir tíu ár verður sonur minn tvítugur. Þá vil ég að hann og jafnaldrar hans horfi til Reykjavíkur í samkeppni við bestu borgir heims.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert