Lýsa eftir 6 metra langri Bola-dós

Vatnstankurinn lítur út eins og bjórdós, en er óneitanlega töluvert …
Vatnstankurinn lítur út eins og bjórdós, en er óneitanlega töluvert stærri að ummáli. Ljósmynd/Facebook

„Kæru vinir Bola-tunnan okkar sprettara er horfinn [sic], er einhver sem veit hvar hún er eða hefur séð hver tók hana,“ spyr Böðvar Guðmundsson á Facebook-síðu sinni þar sem hann auglýsir eftir skrautlegum vatnstanki sem hvarf sporlaust af svæði Hestamannafélagsins Spretts á dögunum.

„Þetta er mjög dularfullt, þetta er 3.000 lítra tankur sem er sex metra langur, þannig að maður setur hann ekkert aftan í fólksbíl,“ segir Böðvar í samtali við mbl.is. „Tankurinn er merktur Bola-bjór og lítur því út eins og stór bjórdós,“ bætir Bövar við, en hann er bílamálari og á jafnframt heiðurinn að skreytingu tunnunnar.  

Hann segir þá sprettara sakna tunnunnar, sem sé notuð til að vökva vellina og væta upp í reiðgötum. „Við höfum því ekki verið að nota hana núna og því stóð hún við kerrustæðið hjá okkur á frekar áberandi stað.

Fyrst eftir að tunnan hvarf hafi þeir talið að einhver væri að stríða þeim, eða hefði fengið hana lánaða. „Síðan eru hins vegar liðnir einhverjir dagar og við erum búnir að vera að hringja út um allt í alla þá sem mögulega hefðu fengið hana að láni og það er enginn sem kannast við þetta.“

Böðvar segir tunnuna heldur ekki hafa verið flutta fyrirhafnarlaust. „Það þarf sérstakan búnað til að flytja hana, því á henni er krókur en ekki kúla. Það sem ýtir síðan enn frekar undir grun okkar er að löppin sem heldur henni uppi, liggur nú á jörðinni.“

Hann segir þá sprettmenn því nú auglýsa eftir tunnunni á samfélagsmiðlum og eru allir þeir sem mögulega hafa séð tankinn skrautlega á ferðinni beðnir um að hafa samband.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert