Flestir fundið bein en ekki mannsbein

„Ég er búinn að vera til sjós í rúm þrjátíu ár og hef ekki upplifað neitt svona áður,“ segir Aðalsteinn R. Friðþjófsson skipstjóri á Fjölni GK, sem fékk líkamsleifar í veiðarfæri sín í síðasta mánuði.

Aðalsteinn segir ekki hafa farið á milli mála að um bein af mannsfæti væri að ræða. Fjórtán manna áhöfn er á skipinu, en hann segir beinafundinn ekki hafa fengið svo mikið á mannskapinn.

„Það hafa flestir sjómenn fengið bein upp úr sjónum, bara ekki af mönnum. Við erum ýmsu vanir og þetta er allt í lagi fyrir okkur. Við vonum bara að þetta verði til þess að einhver fjölskylda fái sálarró.“

Aðalsteinn er ánægður með viðbrögð Landhelgisgæslunnar sem og lögreglu, og tekur sérstaklega fram hversu mikil fagmennska einkenndi allt ferlið eftir að líkamsleifarnar fundust og voru tilkynntar.

„Mér fannst fagmennskan í kring um þetta vera til mikillar fyrirmyndar. Ég átti ekki von á þessu. Ég hélt að svona myndi gerast í bíómynd, ekki í alvörunni. Ég get ekki lýst því hvað þetta var allt öruggt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert