Stjörnugjöf vegakerfisins aðgengileg öllum

Samkvæmt EuroRap öryggismati íslenska vegakerfisins er víða þörf á úrbótum …
Samkvæmt EuroRap öryggismati íslenska vegakerfisins er víða þörf á úrbótum og nú eru þær upplýsingar aðgengilegar á vefnum. mbl.is/Golli

„Það er óviðunandi hversu margir farast í umferðinni og verða fyrir alvarlegum skakkaföllum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra samgöngumála á fundi Félags íslenskra bifreiðaeigenda í Hörpu morgun.

Þar opnaði Sigurður Ingi fyrir aðgang að gagnagrunni EuroRAP, þar sem hægt er að skoða stjörnugjöf EuroRAP fyrir íslenska þjóðvegakerfið og jafnframt sjá hvaða framkvæmdir EuroRAP leggur til að farið sé í til þess að auka umferðaröryggi á vegum.  

Kostnaðarmat framkvæmda er inni í gagnagrunninum og einnig metur kerfið hversu mikill ávinningurinn yrði af hverri framkvæmd, sökum aukins umferðaröryggis og minni dánar- og slysatíðni, en reynsla EuroRAP sýnir að fyrir hverja eina stjörnu sem vegur uppfærist fækkar slysum um helming.

Samkvæmt EuroRAP öryggismatinu er mörgu ábótavant í íslenska vegakerfinu, en alls er hægt að sjá stjörnugjöf fyrir 4.200 kílómetra vegkafla, sem kortlagðir voru á árunum 2012-2017 með bíl sem útbúinn er myndbandsupptökuvélum.

Einungis 2,8% vega ná fjórum stjörnum og 22,4% vegakerfisins nær þremur stjörnum af fimm, sem ætti að vera markmið Íslendinga á flestum vegum, að sögn James Bradford, þróunar- og tæknistjóra iRap og EuroRAP. 34% vegakerfisins fær einungis tvær stjörnur í matinu og 40,9% vegakerfisins fær lægstu einkunn, eða eina stjörnu.

Þessi sérútbúna Benz-bifreið var notuð til að festa íslenska vegakerfið …
Þessi sérútbúna Benz-bifreið var notuð til að festa íslenska vegakerfið á filmu og síðan var öryggið metið. mbl.is/Arnar

Sigurður Ingi sagði að það skipti miklu máli að kortleggja þetta með þessum hætti og því hefðu yfirvöld stutt við þetta verkefni FÍB, en öryggismatinu er ætlað að vera til ráðgjafar fyrir stjórnvöld, veghaldara, veghönnuði, verktaka, tryggingafélög og aðra sem láta sig umferðaröryggi varða.

Ólafur Guðmundsson frá FÍB hefur verið tæknistjóri verkefnisins hér á landi og sagði það hafa verið afar tímafrekt, en fyrir hverja klukkustund í akstri þarf að vinna úr niðurstöðunum í um 8-10 klukkustundir og færa inn í gagnagrunninn ótal mismunandi þætti á vegunum og nærumhverfi þeirra, sem áhrif hafa á öryggi veganna.

Hægt er að skoða gagnagrunninn hér

Sigurður Ingi sagði mjög mikilvægt að kortleggja vegakerfið með þessum …
Sigurður Ingi sagði mjög mikilvægt að kortleggja vegakerfið með þessum hætti. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert