Rekstur HSA enn í járnum

Heilbrigðisstofnun Austurlands. Ríkisendurskoðun segir ekki víst hvort aðhaldsaðgerðir síðustu ára …
Heilbrigðisstofnun Austurlands. Ríkisendurskoðun segir ekki víst hvort aðhaldsaðgerðir síðustu ára skili áframhaldandi árangri ef nauðsynlegum fjárfestingum er slegið á frest. Af vef Ríkisendurskoðunar

Rekstur Heilbrigðisstofnunnar Austurlands er enn í járnum, en Ríkisendurskoðun ítrekar þó ekki ábendingar sínar til velferðarráðuneytis og Heilbrigðisstofnunar Austurlands frá árunum 2009, 2012 og 2015 sem sneru að eftirliti með fjárreiðum og rekstri stofnunarinnar.

Þetta kemur fram á vef Ríkisendurskoðunar sem segir uppsafnaðan halla stofnunarinnar hafa verið jafnaðan út með lokafjárlögum 2015 og stjórnendur hennar hafa sýnt aukið aðhald í rekstri. Síðustu ár hafi rekstur stofnunarinnar verið í járnum, en að jafnaði í samræmi við fjárveitingar.

Þrátt fyrir að fjárhagur Heilbrigðisstofnunar Austurlands sé í jafnvægi er ljóst að stofnuninni er þröngt skorinn stakkur.

„Ekki er víst hvort aðhaldsaðgerðir síðustu ára muni skila áframhaldandi árangri, m.a. ef nauðsynlegum fjárfestingum hefur verið slegið á frest. Ríkisendurskoðun brýnir því fyrir velferðarráðuneyti mikilvægi þess að rekstrargrundvöllur Heilbrigðisstofnunar Austurlands sé í samræmi við verkefni hennar. Sé fjármögnun fyrir verkefnum hennar ekki tryggð þarf ráðuneytið að koma að því að taka erfiðar ákvarðanir um þjónustu og forgangsröðun stofnunarinnar,“ segir í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert