„Var vinur minn réttdræpur?“

Lárus segir Hauk hafa hatað stríð.
Lárus segir Hauk hafa hatað stríð. Ljósmynd/Aðsend

„Getur einhver tekið af okkur byrðarnar í smá stund og barist fyrir okkur um að fá Hauk heim, þó ekki væri nema í einn dag? Við þráum hvíld.“ Þetta skrifar Lárus Páll Birgisson, vinur Hauks Hilmarssonar, sem sagður er hafa fallið í átökum við tyrkneska herinn í Afrin-héraði í Sýrlandi í febrúar, í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

„Vill einhver hjálpa okkur? Getur einhver sem þekkir muninn á réttu og röngu staðið með okkur á þessum erfiðu tímum? Það er nógu erfitt fyrir okkur sem elskum Hauk að glíma við sorgina, missinn og óvissuna. Að þurfa á sama tíma að glíma við íslenska ráðamenn sem eru bandamenn þeirra er bera ábyrgð á hvarfi Hauks, er ekki að hjálpa. Enginn þeirra þorir að taka afstöðu með Hauki og því réttlæti sem hann barðist fyrir. Enginn þeirra vill taka afstöðu til þess hvort Haukur hafi verið réttdræpur eða réttlátur,“ segir Lárus og vísar til þess að Íslendingar og Tyrkir eru bandamenn sem NATÓ-þjóðir.

Fréttir af falli Hauks hafa ekki verið staðfestar og enginn virðist vita hvar hann er niðurkominn. Lík hans hefur ekki fundist og varnarmálaráðherra Tyrklands staðfesti í gær að Haukur væri ekki í haldi stjórnvalda þar í landi, en það voru tyrkneskir fjölmiðlar sem fyrst greindu frá falli hans. Ættingjar og vinir Hauks leita hans því logandi ljósi því hver dagur getur skipt máli. Lárus biðlar til allra þeirra sem vita muninn á réttu og röngu að kynna sér ástæður þess að Haukur hélt til Sýrlands að berjast gegn óréttlætinu og láta í sér heyra.

Lárus Páll Birgisson segir erfitt fyrir ástvini Hauks Hilmarssonar að …
Lárus Páll Birgisson segir erfitt fyrir ástvini Hauks Hilmarssonar að þurfa á sama tíma að glíma við íslenska ráðamenn og sorgina, missinn og óvissuna.

„Getið þið prestar sem mig þekkið, þið siðfræðingar og allir góðir menn sem vitið skyn góðs og ills, hjálpað okkur? Getið þið tekið eitt augnablik úr lífi ykkar til að gúggla orðunum „Constitution of Rojava“ og lesið þá stefnuskrá. Ef þið viljið komast nálægt því að skilja Hauk Hilmarsson er best að byrja á því að kynna sér það sem hann fór til að verja. Látið í ykkur heyra! Var vinur minn réttdræpur? Getur einhver hjálpað okkur að finna Hauk? Það er meiri huggun að lemstruðu DNA-sýni af einhverri hæð í Sýrlandi heldur en ekkert. Sorgin hefur beygt okkur en það er óvissan sem brýtur.“

Lárus segir Hauk hafa verið kæran vin. Hann hafi þekkt muninn á réttu og röngu betur en flestir. „Það sem varð honum að falli er skortur á hæfileika sem við hin höfum; að geta litið undan. Að geta litið undan kvöld eftir kvöld fyrir framan sjónvarpskjáinn, horfandi á afhöfðanir, mannabrennur, þrælamarkaði, fjöldamorð, raðnauðganir, hrylling eftir hrylling eftir hrylling.“

Hann segir Hauk vel hafa vitað að það sem hann þurfti að gera væri rangt. „Af tveimur röngum kostum valdi Haukur að gera eitthvað í stað þess að gera ekkert. Hann valdi að gera það sem við hin getum ekki gert af því það fer of langt út fyrir þægindarammann. Haukur hataði stríð. Hann hataði kerfin sem ýta undir stríð. Hann sá hræsnina í stríðsþátttöku íslenska ríkisins á sama tíma og við hreykjum okkur af því að vera kristin þjóð í friðsælu landi.“

Lárus segir Hauk ekki hafa farið til Sýrlands til að berjast eða meiða nokkur mann. Hann hafi farið til Sýrlands til að sigra íslamska ríkið.

„Það sem við ástvinir Hauks erum núna að ganga í gegnum er sú hugsun að mögulega hafi Haukur náðst lifandi og því viti þeir nafn hans. Okkar martröð er rétt að byrja þegar við leiðum hugann að því að í tæpan mánuð geti Haukur hafa verið í haldi bandamanna íslenska ríkisins með réttarstöðu hryðjuverkamanns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert