„Grímulaus áróður gegn samningnum“

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það eru vonbrigði að hann hafi verið felldur. Það kom kannski ekki á óvart miðað við að það var grímulaus áróður í gangi gegn samningnum af pólitískum aðilum sem lögðu mikið á sig við að fella hann án þess að greina frá því hvað gæti tekið við,” segir Ólafur Loftsson formaður Félags grunnskólakennara. Grunnskólakennarar felldu í dag kjarasamning FG og Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

„Það sem er alvarlegt í þessu er að stjórnmálaafl geti með beinum hætti beitt sér í atkvæðagreiðslu kjarasamnings. Það er alvarleg þróun að stéttarfélagið sé notað á þennan hátt. Hitt er ekki launungarmál að félagsmenn vildu fá meira,“ segir Ólafur. 

Hann vísar til herferðar sem andstæðingar samningsins háðu á samfélagsmiðlum þar sem félagsmenn voru hvattir til að fella hann. Þar af eru tveir af 12 manna samninganefnd sem hafi gert mikið í því að fella hann. Þetta eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, sem skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins, og Jón Ingi Gíslason, formaður kjördæmisráðs Framsóknarmanna í Reykjavík, að sögn Ólafs.  

Hann gagnrýnir að þeir sem hafi hvatt félagsmenn til að fella samninginn hafi ekki sýnt fram á hvað mætti bæta í samningnum og ekki sýnt fram á neinar lausnir. „Nú taka þau við og vonandi tekst þeim að gera betur,“ segir Ólafur. Hann lætur af formennsku FG og stígur einnig út samninganefnd um miðjan maí. 

Ólafur segir samninginn, sem var til eins árs, ekki hafinn yfir gagnrýni. Kostir hans voru meðal annars breyting á vinnumati, breyting til batnaðar á menntunarkafla, undirbúningur fyrir hverja kennslustund var aukinn svo fátt eitt sé nefnt. Ólafur segir þennan samning sem var felldur hafi verið heldur betri en samningur sem félög innan Bandalags háskólamanna (BHM) hafi gert nýverið.

„Launaþróun okkar á síðustu árum hefur verið með besta móti í sögulegu samhengi. Við mátum þetta allt þegar við ákváðum að það væri betra að semja núna og taka næstu samningalotu eftir áramót þegar það liggur fyrir að það stefnir í hörð átök á vinnumarkaði næsta haust,“ segir Ólafur.  

Inga Rún Ólafs­dótt­ir, formaður samn­inga­nefnd­ar Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, segir vonbrigði að samningurinn hafi verið felldur. Samninganefndin kemur aftur saman fljótlega og fer yfir stöðuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert