Túlkun norskra embættismanna

mbl.is/Hjörtur

Fram kemur í svarbréfi sem Terje Søviknes, orkumálaráðherra Noregs, sendi til orku- og umhverfisnefndar norska Stórþingsins á mánudaginn að ályktun atvinnuveganefndar landsfundar Sjálfstæðisflokksins, sem fram fór um síðustu helgi, um orkumál tæki ekki til fyrirhugaðrar innleiðingar á þriðja orkumálapakka Evrópusambandsins.

Þingnefndin óskaði eftir því við norska orkumálaráðuneytið að það útskýrði hvað fælist í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins þar sem segir: „Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“ Vísað er til þess í bréfinu að norska sendiráðið hafi grennslast fyrir um málið hjá utanríkisráðuneyti Íslands en skilja má bréfið þannig að um túlkun þess á ályktuninni sé að ræða.

Samkvæmt svari frá Sveini H. Guðmarssyni, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, er um að ræða „túlkun norskra embættismanna á þeim svörum sem utanríkisráðuneytið veitti norska sendiráðinu í Reykjavík fyrr í þessari viku.“ Í kjölfar fréttaflutnings í Noregi um ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins hafi norska sendiráðið óskað eftir frekari upplýsingum um málið frá utanríkisráðuneytinu.

„Ráðuneytið upplýsti sendiráðið um ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins og vakti athygli sendiráðsins á að þótt hvergi væri vísað beinlínis til þriðja orkupakka Evrópusambandsins í ályktunum þessum undirstrikuðu þær eigi að síður hversu viðkvæmt pólitískt viðfangsefni framsal valds á sviði orkumála væri.“

Sendiráðið hafi jafnframt verið upplýst um að íslensk stjórnvöld hefðu lagt á það áherslu að í samræmi við tveggja stoða kerfi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) færi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) með valdheimildir hinnar nýju samstarfsstofnunar eftirlitsaðila í orkumálum, ACER, gagnvart EFTA/EES-ríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert