2,8 milljarðar til innviða ferðamannastaða

Ríkisstjórnin kynnir í dag „stórsókn í uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum“.
Ríkisstjórnin kynnir í dag „stórsókn í uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum“. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tilkynntu í dag um úthlutun á ríflega 2,8 milljörðum króna til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og öðrum ferðamannastöðum. Tilkynnt var um úthlutunina á fundi í Norræna húsinu sem hófst kl. 13.

Í fréttatilkynningu frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu segir að annars vegar sé um að ræða tæplega 2,1 milljarða króna úthlutun vegna þriggja ára verkefnaáætlunar landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2018 – 2020 og hins vegar 722 milljóna króna úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2018.

„Verkefnaáætlunin tekur m.a. til friðlýstra svæða og fjölsóttra staða í eigu íslenska ríkisins, valinna svæða sveitarfélaga auk landvörslu,“ segir í tilkynningunni. Fjármagni er veitt á 71 stað og eina gönguleið til fjölbreyttra verkefna, með sérstaka áherslu á vernd náttúru, minjavernd, bætt öryggi og bætta aðstöðu fyrir gesti staðanna.

Úthlutunin úr Framkvæmdasjóðinum nær nú í fyrsta sinn til ferðamannastaða sem eru ekki í eigu ríkisins og er það í samræmi við breytta löggjöf um sjóðinn. Gert er ráð fyrir að Framkvæmdasjóðurinn úthluti alls 2,2 milljörðum á árunum 2018 til 2020, en úthlutað er árlega.

Alls hljóta 56 staðir styrk úr sjóðnum að þessu sinni og í tilkynningu segir að sérstök áhersla sé lögð á að fjölga viðkomustöðum ferðamanna  til að stuðla að því minnka álag á fjölsótta staði. Lýtur 21 verkefni að þessu markmiði.

Í fréttatilkynningu segir ennfremur að með úthlutuninni sé „blásið til sóknar í uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum og öðrum ferðamannastöðum í náttúru Íslands“ og að þetta sé í fyrsta sinn sem gerðar séu heildstæðar áætlanir til margra ára þegar komi að mati á uppbyggingarþörf þessara svæða og úthlutun fjármuna til þessa verkefnis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert