750-800 ný leikskólapláss á næstu árum

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, á fundinum í dag. Við …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, á fundinum í dag. Við hlið hans er S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs. mbl.is/Eggert

Reykjavíkurborg hyggst brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla á næstu árum samkvæmt aðgerðaáætlun sem kynnt var í borgarráði í morgun. Til þess þarf að fjölga leikskólaplássum um 750-800.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg

Áætlunin gerir ráð fyrir að sjö nýjum ungbarnadeildum verði komið upp næsta haust auk þess sem fimm til sex nýir leikskólar verði byggðir á næstu árum. Þá verður gripið til margvíslegra aðgerða til að bæta aðstöðu á leikskólum og vinnuumhverfi leikskólakennara og annars starfsfólks.

Tillögur um uppbyggingu leikskólanna byggja á vinnu starfshóps um verkefnið að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, sem borgarstjóri skipaði á vordögum 2016. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir mikilvægt að geta lagt fram þessa áætlun sem nær bæði til skamms tíma og langs tíma.

Á tímabilinu 1994-2002, á aðeins tveimur kjörtímabilum, fór fjöldi barna í heilsdagsvistun úr 30% árið 1994 í 80% árið 2002. Til að gefa öllum börnum kost á leikskólavistun nú þurfi að fjölga starfsfólki á leikskólunum á næstu árum. Stefna skóla- og frístundasviðs um æskilega stærð leikskóla kallar á byggingu fimm til sex nýrra leikskóla í borginni. Því er lagt til að nýir leikskólar rísi í Úlfarsárdal, Vatnsmýri, Laugardal, Háaleiti, Vogabyggð og í Miðborginni.

Á árunum 2022-2026 er síðan gert ráð fyrir að nýir leikskólar muni rísa í nýjum hverfum borgarinnar þar sem þörf krefur; einkum Bryggjuhverfi, Ártúnshöfða, Skerjafirði og Vogabyggð III-IV. Næsta haust verður ráðist í næsta áfanga með opnun sjö ungbarnadeilda til viðbótar við leikskóla í Vesturbæ, Grafarvogi, Grafarholti og Hlíðahverfi. Þar með verða ungbarnadeildir starfandi í öllum borgarhlutum.

Þessum ungbarnadeildum verður heimilt að hefja inntöku barna yngri en 18 mánaða og er miðað við að í haust hefjist inntaka barna á ungbarnadeildir sem fædd eru í maí 2017, þ.e. barna sem verða 16 mánaða og eldri í september.

Aðgerðirnar sem kynntar voru í borgarráði í morgun fela enn fremur í sér að gripið er til margvíslegra aðgerða til að bæta vinnuumhverfi á leikskólum borgarinnar en þær byggja á tillögum starfshóps skóla- og frístundaráðs um nýliðun og bætt vinnuumhverfi leikskólakennara sem skilaði niðurstöðum í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert