Á vespu á 61 km/klst.

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í gærkvöldi afskipti af fjórtán ára réttindalausum ökumanni vespu á Brúnavegi vegna hraðaksturs.

Vespan var mæld á 61 kílómetra hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er 30 km/klst. 

Málið var afgreitt með aðkomu föður ökumanns, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Seint í gærkvöldi var maður í annarlegu ástandi handtekinn á Seltjarnarnesi fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu og brot á vopnalögum. Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Þá var ökumaður stöðvaður af lögreglu við Hjallahraun í Hafnarfirði um klukkan 1 í nótt. Hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur án réttinda, þ.e. hann hefur aldrei öðlast ökuréttindi, vörslu fíkniefna, brot á vopnalögum og skjalafals þar sem röng skráningarnúmer voru á bifreiðinni.

Rétt fyrir tvö í nótt var svo maður handtekinn í húsnæði í austurhluta Reykjavíkur grunaður um framleiðslu og ræktun fíkniefna. Hann var færður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Hald var lagt á um það bil 100 plöntur sem og áhöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert