„Er eitthvað að óttast við faglegt mat?“

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bergþór Ólafsson, þingmaður Miðflokksins, sagði á Alþingi í morgun að ástæða væri til að fagna stefnubreytingu Sjálfstæðisflokksins í málum er varða Landspítalann. Hann spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra hvort ríkisstjórnin væri einhuga í málinu.

Bergþór vitnaði í ályktun Sjálfstæðisflokks frá landsfundi þar sem kom meðal annars fram að „lokið verði þeirri uppbygginu á Landspítalalóð sem er komin á framkvæmdastig og tengist núverandi starfsemi. Farið verði tafarlaust í staðarvalsgreiningu fyrir framtíðaruppbyggingu sjúkrahúsþjónustu með öryggi og sterkari samgönguleiðum að leiðarljósi.

Bjarni sagði að það væri engin spurning að Landspítalinn verði bráða- og háskólasjúkrahús á Íslandi. Hann sagði sjálfstæðisfólk horfa til langs tíma í uppbyggingu sjúkrahúsþjónustu á Íslandi og það sé tímabært að huga að öðru, sérhæfðara sjúkrahúsi sem að muni styðja við það sem rís við Hringbraut.

Hvaða erindi á þetta inn í þingsal?

„Er eitthvað að óttast við faglegt mat? Er samhugur um þetta mál?“ spurði Bergþór þegar hann kom í pontu öðru sinni.

Bjarni hvatti Bergþór til að koma á fundi velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins ef honum þættu ályktanir þaðan óskýrar. „Ég veit ekki hvaða erindi það á hér inn í þingsal að þingmaður Miðflokksins kalli eftir skýringum á ályktun í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Bjarni.

„Hér stendur yfir fundur á Alþingi, ekki landsfundur Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon þingforseti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert