Fordæma árásir Tyrkja á Kúrda

Píratar.
Píratar. mbl.is/Eggert

Þingflokkur Pírata fordæmir árásir Tyrkja á kúrdíska borgara í Norður-Sýrlandi.

Í tilkynningu frá flokknum kemur fram að árásirnar fari fram með þöglu samþykki flestra NATO-þjóða og hvetur hann ríkisstjórn Íslands til að taka undir fordæminguna.

„Okkur ber ávallt skylda til að fordæma ódæðisverk en sér í lagi þegar um er að ræða varnarbandalagsþjóð okkar í NATO sem hefur hafið innrás inn í annað ríki án samþykkis öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða annarra alþjóðastofnana,“ segir í tilkynningunni.

„Þingflokkur Pírata lýsir vonbrigðum sínum með svör utanríkisráðherra Íslands við óundirbúinni fyrirspurn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur fyrr í dag. Ráðherra gat ekki svarað til um hvort hann teldi árásir Tyrkja vera ólögmætar og ganga gegn stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Né heldur var hann reiðubúinn til þess að fordæma árásir Tyrkja opinberlega. Það er vissulega góðra gjalda vert að koma á framfæri mótmælum við sendiherra Tyrkja í Noregi, en betur má ef duga skal og vilja þingmenn Pírata hvetja ráðherra og ríkisstjórnina alla til þess að taka sér afgerandi stöðu með friði og grundvallarlögum þjóðarréttar í þessu máli.“

Alþýðufylkingin fordæmir einnig

Fyrr í dag sendi Alþýðufylkingin frá sér tilkynningu þar sem innrás Tyrklands í Sýrland og ofsóknir Tyrkja gegn Kúrdum eru fordæmdar.

„Þessi innrás er ekki aðeins brot á fullveldisrétti Sýrlands, heldur gróft brot gegn mannréttindum Kúrda. Þá eykur hún á mannlegar þjáningar á svæðinu og stuðlar að því að draga stríðið gegn Sýrlandi á langinn með öllum þeim hörmungum sem því fylgja,“ segir í tilkynningunni.

„Alþýðufylkingin krefst þess að ríkisstjórn Íslands beiti sér innan Nató og á alþjóðavettvangi, fyrir því að endir verði bundinn á þessar hernaðaraðgerðir þegar í stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert