Safna fyrir listasafni á hjara veraldar

Listamaðurinn Samúel Jónsson við listagarð sinn árið 1965.
Listamaðurinn Samúel Jónsson við listagarð sinn árið 1965. Ljósmynd/Aðsend

Aðeins fjórtán dagar eru eftir í söfnun Félags um Listasafn Samúels í Selárdal. Söfnuninni lýkur á miðnætti þann 4. apríl og vantar um 33% upp á það fjármagn sem þarf fyrir næsta áfanga í endurreisn þessa einstaka safns á hjara veraldar.

Sólveig Ólafsdóttir, ein aðstandenda félagsins, segir í samtali við mbl.is alla endurgerð hafa verið gerða í sjálfboðavinnu. Næsti byggði bær er í 25 kílómetra fjarlægð á Bíldudal og nauðsynlegt sé að koma upp góðri aðstöðu fyrir sjálfboðaliðana. 

Hún segir að á góðum degi komi um 100-200 manns í heimsókn í dalinn. „Það er stöðug umferð yfir sumartímann.“

Í húsinu á að koma upp aðstöðu fyrir gesti, veitingar …
Í húsinu á að koma upp aðstöðu fyrir gesti, veitingar og búð. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig bregst fólk við listasafni á þessum stað?

„Útlendingar þeir trúa ekki sínum eigin augum. En Íslendingarnir vita flestir af þessu, hafa séð myndir og annað. Þetta er samt ótrúleg upplifun“ segir Sólveig. Sjálf er hún alin upp í dalnum að hálfu leyti. Bæði faðir hennar og afi voru þar með búskap. 

Björguðu listaverkum frá eyðileggingu

Safnið í Selárdal er um verk listamannsins Samúels Jónssonar sem lést 1969. Byggingar Samúels og höggmyndagarður voru hans síðustu verk, en tuttugu ár eru liðin síðan félag um endurreisn safnsins var stofnað, og staðnum verið breytt í safn sem félagið hefur umsjón með.

Á þessu tímabili hefur tekist að bjarga styttunum og stóru byggingunum í garði listamannsins frá algerri eyðilegginguÞað hefur tekið níu ár að gera gamla íbúðarhús Samúels fokhelt en þar verður nauðsynleg aðstaða á staðnum til að hægt sé að sinna uppbyggingarstarfinu.  

Safna fyrir endurreisninni

Þegar hafa safnast um 1,6 milljónir króna, en enn vantar um 900.000 krónur. upp á að takmarkinu sé náð og styrkurinn fáist úr Karolina Fund. Það er því mikið í húfi fyrir félagið að ná þessu marki svo hægt verði að koma húsi Samúels í Selárdal í notkun á 20 ára afmæli endurreisnar safnsins nú í sumar. 

Í húsinu verður aðstaða fyrir gesti, veitingar og búð. Hægt er að styðja söfnunina hér.  

Félag um Listasafn Samúels er áhugafélag og allur hagnaður starfseminnar rennur beint til verkefnisins. Stjórn félagsins stýrir verkefninu í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið sem er eigandi staðarins.

Sjálboðaliðar hafa unnið ötullega að endurgerð hússins.
Sjálboðaliðar hafa unnið ötullega að endurgerð hússins. Ljósmynd/Aðsend

Listamaðurinn með barnshjartað

Samúel hefur verið kallaður listamaðurinn með barnshjartað enda var hann alþýðumaður með stóra drauma sem margir hverjir urðu ljóslifandi í listagarði hans í Selárdal. Öll verk Samúels bera honum fagurt vitni og var hann víða þekktur fyrir hæfileika sína. Hans er þó hvergi getið í ritum um íslenska listasögu.

Hann málaði fjölmörg olíumálverk og landslagsmyndir sem hann rammaði inn sjálfur. Hann gerði sér högglistagarð, skar út í tré og gerði einnig líkön. Þessi líkön voru gerð úr hundruðum ef ekki þúsundum smáhluta og því að bak margar vinnustundir, þolinmæði og sköpunargleði. 

Félagið segir Listaverk Samúels alþýðuminjar sem eigi engar sínar líkar annarsstaðar á landinu. Náttúruöflin í Selárdal höfðu leikið þær grátt þegar endurreisn listaverkanna var hrundið af stað og félag um það verkefni var stofnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert