Mannsæmandi laun og bættar aðstæður

Björn Blöndal, Dagur B. Eggertsson og Líf Magneudóttir á fundi …
Björn Blöndal, Dagur B. Eggertsson og Líf Magneudóttir á fundi þar sem aðgerðaáætlun var kynnt í dag. mbl.is/Eggert

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að undanfarið ár hafi verið unnið að því að bæta starfsaðstöðu leikskólakennara og -barna en borgin kynnti í dag áætlun þar sem gert er ráð fyrir því að leikskólaplássum fjölgi um 750-800 á næstu sex árum.

Dagur segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða uppbyggingaráætlun sem lúti að því að fjölga plássum. „Til skemmri tíma erum við að fara í sjö nýjar ungbarnadeildir, auk viðbygginga og færanlegra húsa þar sem þörfin er mest. Til lengri tíma ætlum við okkur að byggja fimm til sex 150 barna leikskóla á næstu árum til þess að foreldrar geti valið hvort börn fari inn á leikskóla frá 12 mánaða aldri.

Búið að byggja leikskóla í Úlfarsárdal

Gert er ráð fyrir því að á næstu fjórum til sex árum geti öll eins árs börn átt öruggt pláss á leikskóla. Dagur segir að það þurfi aðeins að sjá til hvernig borgin þróist og hvar barnafjölskyldum fjölgi mest.

Við erum þegar búin að byggja fyrsta skólann uppi í Úlfarsárdal. Hann er notaður sem grunnskóli en um leið og grunnskólinn er tilbúinn getum við tekið börn inn á leikskólann,“ segir Dagur og bætir við að búið sé að gera samning um nýjan leikskóla á Kirkjusandi. „Síðan eru verkefni sem liggja enn nær í tíma sem eru ungbarnadeildir, sem eiga að geta komist í gagnið eftir sjö til átta mánuði.

Unnið að áætluninni í talsverðan tíma

Spurður hvers vegna þessi áætlun hafi ekki legið fyrr á borðinu, en kvartanir vegna þess að börn komast seint inn á leikskóla hafa heyrst í allan vetur, segir Dagur að unnið hafi verið að áætluninni undanfarið ár í samstarfi við Félag leikskólakennara.

„Þar hefur verið hlustað eftir sjónarmiðum inni á öllum leikskólum varðandi það sem kreppir að í tengslum við starfsaðstöðu starfsfólks og barna. Við teljum uppbyggingarverkefni og það að búa vel að núverandi starfsfólki og að gera leikskóla að eftirsóknarverðum starfsvettvangi til framtíðar séu nátengd verkefni,“ segir borgarstjóri.

Hann bendir á í tengslum við það að borgin bjóði upp á sumarstörf á leikskólum fyrir ungt fólk sem hafi áhuga á námi í kennslu- og uppeldisfræðum. „Það á að taka frekari skref í að gera leikskólann að eftirsóknarverðum vinnustað og námið að eftirsóknarverðu námi.

Laun hafa skánað

Talsvert hefur verið rætt um kaup og kjör leikskólakennara en S. Björn Blöndal, borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar, sagði á fundi þegar áætlunin var kynnt að launin hefðu skánað töluvert og væru núna „mannsæmandi“.

Borgarstjóri segir að grunnlaun leikskólakennara séu sambærileg grunnlaunum grunnskólakennara og annarra háskólamenntaðra sérfræðinga hjá sveitarfélögum. Hann segist gera sér grein fyrir því að það séu minni tækifæri til yfirvinnu hjá leikskólakennurum en bætir við að borgaryfirvöld hafi gert betur en kollegar þeirra á Norðurlöndum í því að jafna laun leikskólakennara miðað við grunnskólakennara. 

„Við erum býsna stolt af því og þegar við vorum að ræða við starfsfólk eru launin nefnd en líka aðbúnaður og þeir hlutir. Ég geri ráð fyrir því að við höldum þessu samtali áfram, varðandi kjör og starfsaðstæður, og erum núna að gera róttækar aðgerðir í að bregðast við því sem nefnd eru forgangsmál.“

mbl.is

Bloggað um fréttina