Orkumál Íslands ekki mál ESB

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þegar að um svona mál er að ræða þá á Alþingi síðasta orðið. Það er sá fyrirvari sem menn gera í Evrópusamvinnunni að þeir hafa ekki að stjórnskipunarlögum heimild til þess að skuldbinda Ísland við samningaborðið úti í Brussel án aðkomu Alþingis.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag í umræðum um landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um orkumál þar sem fram kemur meðal annars að flokkurinn hafni frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins, en þar var vísað til löggjafar frá sambandinu sem tekin var upp í EES-samninginn á síðasta ári en hefur ekki verið staðfest á Alþingi.

Löggjöfin kveður á um stofnun sérstakrar eftirlitsstofnunar á vegum Evrópusambandsins sem nefnd hefur verið ACER og ætlað er að sinna eftirliti með evrópskum orkumarkaði. Mikil umræða hefur verið um málið í Noregi. Mótmælafundir hafa farið fram og skiptar skoðanir eru um málið á meðal norskra stjórnmálaflokka og innan þeirra.

Stærri mál en virtist á yfirborðinu

Tilefni svarsins var fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni, þingmanni Viðreisnar, sem óskaði eftir því við Bjarna að hann útskýrði ályktun landsfundar. Bjarni sagði málið mjög stórt sem virtist ekki á yfirborðinu varða íslenska raforkumarkaðinn mjög með beinum hætti þar sem boðvald fyrirhugaðrar eftirlitsstofnunar virkjaðist ekki fyrr en Ísland tengdist evrópska orkumarkaðinum, líkt og yrði með sæstreng, eins og Noregur gerði.

Spurður hvort Sjálfstæðisflokkurinn styddi aðild Íslands að EES-samningnum sagði Bjarni svo vitanlega vera. Hins vegar sagði hann þetta mál gott tilefni til þess að velta fyrir sér málum sem sneru að innri markaði Evrópusambandsins sem Ísland tengist í gegnum EES-samninginn. Spurði hann hvað Íslendingar hefðu með það að gera að ræða orkumál sín við sambandið úti í Brussel. Mál sem tengdust á engan hátt orkumarkaði þess. 

„Er það mál sem varðar innri markaðinn með beinum hætti þegar engin er tengingin? Eða treystum við okkur til þess að skipa endanlega þeim málum sem varða íslenskan raforkumarkað til lykta á okkar forsendum eins og Alþingi kýs? Þetta finnst mér vera spurningar sem eru mjög verðugar mikillar umræðu hérna í þinginu.“

„Eru það rök?

Það væri hins vegar annað mál og „mikið framtíðarmál“ hvaða regluverk ætti að taka við ef íslenski raforkumarkaðurinn yrði tengdur við hinn evrópska sem engin áform væru uppi um í dag. Við þær aðstæður væri eðlilegt að um einhvers konar samstarf yrði að ræða. Lýsti Bjarni furðu sinni á áhuga ákveðinna þingmanna á að komast undir boðvald samevrópskra stofnana líkt og í orkumálum.

„Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana?“ spurði Bjarni. Fékk hann það svar frá Þorsteini að Ísland væri þegar undir slíku boðvaldi í gegnum EES-samninginn. „Eru það rök? Að þar sem Evrópusambandinu hefur þegar tekist að koma Íslandi undir einhverja samevrópska stofnun að þá sé ástæða til þess að ganga lengra?“ Var þar vísað til fjármálaeftirlits Evrópusambandsins.

„Mér finnst vera svo mikið grundvallaratriði hér að við skilgreinum hvað séu innrimarkaðsmál sem við viljum sinna sérstaklega undir EES-samningnum og hvað eru mál sem tengjast ekki beint innri markaðinum. Og hérna erum við með kristaltært dæmi um það. Þetta er raforkumál Íslands. Þetta er ekki innrimarkaðsmál.“

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is