Samskiptavandi getur orðið að einelti

Samskiptavandi á vinnustað getur þróast út í einelti ef ekkert …
Samskiptavandi á vinnustað getur þróast út í einelti ef ekkert er að gert. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tæplega 30 prósent starfsmanna borgarinnar hafa orðið vitni að fordómum eða skorti á virðingu í garð samstarfsfélaga. Í langflestum tilfellum, eða um 50 prósent, var um að ræða fordóma í garð fólks af erlendum uppruna. Í 24 prósent tilfella var um að ræða fordóma eða skort á virðingu vegna heilsufars viðkomandi.

Þetta kemur fram í nýrri viðhorfskönnun sem lögð var fyrir starfsmenn Reykjavíkurborgar. Svarhlutfallið var um 60 prósent, eða um 5.000 svör. 73 prósent konur og 27 prósent karlar. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á opnum fundi Reykjavíkur borgar um málefni #metoo sem fór fram í Ráðhúsinu í morgun.

Niðurstöður sömu könnunar sýndu að 5,7 prósent svarenda, eða 260 starfsmenn, höfðu orðið fyrir einhvers konar áreitni af hálfu samstarfsfélaga á síðustu 12 mánuðum. Áreitni með orðum var algengust en um 5,8 prósent úr þeim hópi höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni.

3,7 prósent höfðu orðið fyrir einelti af hálfu samstarfsfélaga eða 169 starfsmenn. Útilokun var algengust. Þar á eftir kom illt umtal og niðurlæging.

Skoðanaágreiningur er ekki einelti

Ragnhildur Ísaksdóttir, starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar, sagði í erindi sínu á fundinum að mikilvægt væri að skoða heildarmyndina þegar kemur að einelti, áreitni eða annars konar ofbeldi á vinnustöðum. Sagði hún Reykjavíkurborg hafa tekið skýra afstöðu gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og annars konar ofbeldi.

Ragnhildur sagði mikilvægt að hafa í huga að það sem byrjar sem samskiptavandi á vinnustað getur orðið að einelti. Það þyrfti þó að hafa í huga að skoðanaágreiningur fellur ekki undir einelti, hvort sem hann snýr að vinnu eða einkalífi.

Hún kom inn á tvær birtingarmyndir starfstengds eineltis. Hótanir um það sem gæti gerst ef fólk gerði mistök. Þar sem markvisst væri unnið að því að útiloka starfsmanninn. Hann væri kannski undir sérstöku eftirliti og beðið væri eftir því að hann gerði mistök. Þá  er félagsleg útskúfun og særandi framkoma. Þar sem hópurinn eða einstaklingar taka einn fyrir og gera grín á kostnað þessa aðila.

„Einhver gæti sagt: „má ekki grínast?“ Jú, húmor getur haft jákvæð áhrif en það má ekki vera á kostnað annarra.ׅ“

Eitt tilfelli nóg af kynferðislegri áreitni

Ragnhildur sagði orðin „endurtekið“ og  „ítrekað“ vera lykilorð þegar kemur að einelti. Eitthvað sem gerist einu sinni eða tvisvar flokkist ekki undir einelti. Hins vegar þurfi kynferðisleg áreitni ekki að vera endurtekin til að hún teljist sem áreitni. Eitt tilfelli er nóg.

Hún sagði hegðunina geta verið líkamlega, táknræna eða orðbundna, en hún væri alltaf í óþökk þess sem fyrir henni yrði. Benti hún jafnframt á að upplifun fólks væri ekki alltaf sú sama, en það væri upplifunin sem skipti máli.

Ragnhildur sagði stjórnendur á vinnustöðum bera gífurlega ábyrgð. Það væri hans að skipuleggja vinnuumhverfið þannig að það væri gott fyrir alla. Sýna gott fordæmi og koma fram af virðingu. Þá væri mikilvægt að stjórnandi gripi strax inn þegar samskiptavandi kæmi upp. Lítill vandi gæti fljótt orðið stór ef ekkert væri að gert.

Hjá Reykjavíkurborg starfa 11 eineltis- og áreitniteymi, en þeirra hlutverk er meðal annars að upplýsa fólk um stefnu og viðbragðsáætlun, upplýsa um úrræði, taka á móti kvörtunum og koma þeim í réttan farveg. Stundum rannsaka teymin sjálf þau mál sem koma upp en stundum eru aðilum utanhúss falin mál, þá oftast sálfræðingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert