„Dickish behaviour“ að taka þetta

Hugleikur má ekki lengur prenta þessa teikningu á boli.
Hugleikur má ekki lengur prenta þessa teikningu á boli. mynd/dagsson.com

Dagsson.com, fyrirtæki Hugleiks Dagssonar, má ekki lengur prenta orðið HÚ! á boli líkt gert hefur frá því hann teiknaði mynd af karli í landsliðsbúningi að segja HÚ! sumarið 2016. Teikningin kallast einfaldlega HÚ! Er þar vísað til víkingaklappsins svonefnda sem fylgt hefur íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu og stuðningsmönnum þess frá því í undankeppni EM í knattspyrnu.

Ástæðan er sú einhver hefur fengið HÚH! sem skráð vörumerki og hefur einkarétt á notkun þess á fatnað og áfengi. Hugleikur segist hafa fengið þær upplýsingar hjá Einkaleyfastofu að HÚH! og HÚ! sé sama orðið. Umræddur einstaklingur setti sig fyrst í samband við fyrirtæki Hugleiks síðasta haust tjáði forsvarsmönnum þess að þeim væri ekki heimilt að prenta HÚ! á boli nema gegn gjaldi.

Hélt við hefðum sjálf stolið víkingaklappinu

Hugleikur deildi færslu um málið á Facebook fyrir skömmu og segir þetta hafa komið sér verulega á óvart.

„Í fyrsta lagi vissum við ekki að það væri hægt að eiga þennan óeiginlega sándeffekt. Við héldum að allir ættu þetta hljóð/orð/hróp. Í öðru lagi hélt ég að við hefðum sjálf stolið víkingaklappinu frá skotlandi eins og almennilegir víkingar. Í þriðja lagi stendur ekki HÚH! á okkar bol heldur HÚ!. Sem að mínu mati er íslenskari stafsetning en HÚH! því við endum orð ekki á hái hérlendis,“ segir meðal annars í færslunni.

Hugleikur Dagsson.
Hugleikur Dagsson. skjáskot/Youtube

Hugleiki finnst þetta ansi lúalegt af viðkomandi. „Ég skil alveg hvernig er hægt að gera þetta og hvernig þetta er löglegt en þetta er svolítið „dickish behaviour“ að taka þetta,“ segir hann í samtali við mbl.is

„Verður alltaf Grinch sem stal víkingaklappinu“

Hugleikur sá sér hins vegar leik á borði og vildi freista þess að gefa íslensku þjóðinni HÚ! fyrst búið var að taka HÚH! frá henni.

„Við fórum því á Einkaleyfastofu til að athuga hvort við gætum ekki bara keypt HÚ! eins og við skrifum það. Við ætluðum að gefa þjóðinni það svo allir gætu notað þetta,“ segir hann. Það var hins vegar ekki hægt því orðin teljast þau sömu.

Hann segist þó allt eins búast við því að málið verið tekið upp aftur. „Þetta er bara eins og „já sæll“ eða „blessaður meistari“ eða „áfram Ísland“ eða „þetta reddast“. Þetta er svipað og ef einhver myndi kaupa réttinn á „þetta reddast.““

Hugleikur telur einkaleyfishafann aldrei geta komið vel út úr þessu máli. „Annað hvort verður þetta öllum í vil og allir fá HÚ-ið eða hann fær það. En jafnvel ef hann vinnur og fær réttinn á þessu öllu saman, þá er hann alltaf búinn að tapa í mínum huga. Hann verður alltaf Grinch sem stal víkingaklappinu. Mig langaði ekkert til að gera grýlu úr honum en mér fannst ég ekki eiga annarra kosta völ.“

Nú er Dagsson.com að selja lagerinn sem til er af bolunum áður en einkaleyfishafinn getur beitt sér gegn þeim, en helmingur alls ágóðans rennur til Krabbameinsfélags Íslands.


 

mbl.is

Bloggað um fréttina