HÚ-inu hefur ekki verið hafnað

Ýmsir möguleikar standa Hugleiki til boða vilji hann halda áfram …
Ýmsir möguleikar standa Hugleiki til boða vilji hann halda áfram að nota HÚ-ið. mynd/dagsson.com

Samkvæmt upplýsingum frá Einkaleyfastofunni hefur ekki enn verið sótt um skráningu á vörumerkinu HÚ! Skráningu þess hefur því ekki verið hafnað. Orðið er hluti af samnefndri teikningu Hugleiks Dagssonar sem prentuð hefur verið á boli frá árinu 2016 og þeir seldir í vefversluninni Dagsson.com.

HÚH! er hins vegar skráð vörumerki og hefur ákveðinn einstaklingur einkarétt á notkun þess á fatnað og áfengi. Sá hafði samband við forsvarsmenn Dagsson.com síðasta haust og tjáði þeim að þeir hefðu ekki leyfi til að prenta teikninguna á boli þar sem orðið væri skrásett vörumerki í hans eigu.

Hugleikur sagði í færslu sem hann birti á Facebook fyrr í dag að hann hefði í kjölfarið reynt að fá HÚ! sem skrásett vörumerki, en hefði verið tjáð um væri að ræða sama orð og HÚH! Það væri því ekki hægt. 

Rannsókn verður að fara fram fyrst

Pétur Vilhjálmsson sviðsstjóri hjá Einkaleyfastofunni telur ólíklegt að Hugleikur hafi fengið þær upplýsingar þar innanhúss að HÚH! og HÚ! væru of lík vörumerki til að hægt væri að fá það síðarnefnda skrásett.

„Það er ekki okkar að segja, hvorki við Hugleik né annan umsækjanda, hvort þetta sé of líkt. Þegar það er sótt um vörumerki hjá okkur þá fer fram rannsókn og það er litið til þeirra merkja sem eru til í vörumerkjaskrá og ýmissa fleiri þátta. Meðal annars fyrirtækjaskráninga, merkingar orða og fleira. Þá fyrst liggur fyrir hvort við teljum vera líkingu með orðum eða ekki. Þannig ef hann myndi sækja um þá fyrst kæmi í ljós afstaða Einkaleyfastofunnar til þess,“ segir Pétur í samtali við mbl.is. Hann ítrekar að Einkaleyfastofan hafi ekki heimild til að tjá sig um líkindi orða áður en formleg umsókn hefur verið afgreidd. Ekki hafi verið sótt um skráningu á HÚ! sem vörumerki og skráningu hafi því ekki verið hafnað.

Hann tekur fram að andmælaréttur sé á öllum skráningum og hverjum sem er sé því heimilt að andmæla skráningu. „Það sem hann getur getur gert í þessu tilviki, eða hver sem er sem telur sig eiga einhverja hagsmuni, að fara fram á niðurfellingu á þessu merki. Þá til dæmis með þeim rökum að einhver hafi verið byrjaður að nota það áður í þessum tilgangi.“

Ekki öruggt að Hugleikur sé að brjóta gegn rétti

Pétur segir Hugleik einnig geta haldið áfram að nota merkið og þá átt hættu á því eigandi skráningarinnar geri athugasemd við þá notkun við Neytendastofu. Hún sé úrskurðaraðili um það hvort um sé að ræða ólögmæta viðskiptahætti eða ekki þegar vörumerki eins er notað í vörur annars.

„Svo er alltaf spurning hvort þessir tveir bókstafir með upphrópunarmerki inni í talbólu í tengslum við einhverja mynd sé notkun á skráðu vörumerki. Það er ekki okkar að segja til um það. Það væri frekar Neytendastofu að úrskurða um það. Það er ekkert öruggt að hann sé að brjóta gegn einhverjum rétti því það er miklu meira á bolnum heldur en bara orðið HÚ!“

Pétur bendir einnig á að samkvæmt lögum eigi tilgangurinn með því að sækja skráningu vörumerkis að vera sá að nota það sem vörumerki. Hafi þessi aðili ekki notað vörumerkið sem slíkt sé hægt að fara fram á að einkarétturinn falli niður.

„Hann getur líka sótt um skráningu á myndinni allri. Manninum og HÚ-inu. Þá tökum við afstöðu til þess.“ Það eru því ýmsir möguleikar í boði fyrir Hugleik og fyrirtæki hans, vilji hann halda áfram að prenta HÚ! á boli.

Þegar einhver fær skráð vörumerki þá hefur hann einkarétt á að nota í viðskiptatilgangi eða atvinnustarfsemi til dæmis orð, orðasambönd, myndir eða tákn, hljóð og fleira. Ekki er hins vegar hægt að fá almenn orð með þekkta merkingu skrásett sem vörumerki. Þannig gæti til dæmis enginn fengið skrásett vörumerkið „matur“ og fengið einkarétt á notkun þess.

mbl.is