Ateria sigurvegari Músíktilrauna

Ateria á undankvöldi 20. mars sl. Hljómsveitin er skipuð þremur …
Ateria á undankvöldi 20. mars sl. Hljómsveitin er skipuð þremur ungum stúlkum, en fjölmargar konur skipuðu hljómsveitir úrslitakeppninnar. Ljósmynd/Músíktilraunir

Hljómsveitin Ateria er sigurvegari Músíktilrauna 2018, en úrslit keppninnar voru kunngjörð nú um mitt kvöld. Í öðru sæti varð hljómsveitin Mókrókar og í því þriðja hljómsveitin Ljósfari.

Ateria er skipuð þremur stúlkum á aldrinum 13 til 17 ára og leikur tilraunakennt popp. Mókrókar er skipuð þremur mönnum á aldrinum 21 til 24 ára og leikur blúsaða spunatónlist. Ljósfari er skipuð fimm mönnum á aldrinum 21 til 28 ára og leikur vandaða og hrífandi poptónlist.

Tíu flytjendur öttu kappi á úrslitakvöldinu en alls tóku þrjátíu flytjendur þátt. Úrslitakvöldið var óvenjulegt að því leyti að nær ekkert rokk var á boðstólnum fyrir áheyrendur, en þeim mun meiri tilraunatónlist. Stúlkur voru í forgrunni á úrslitakvöldinu en helmingur hljómsveita þar hafði stúlkur í forystu eða voru eingöngu skipaðar stúlkum.

Söngkona músíktilrauna var Eydís Ýr Jóhannsdóttir úr Sif, gítarleikari Músíktilrauna var Þorkell Ragnar Grétarsson úr Mókrókum, bassaleikari Músíktilrauna var Snorri Örn Arnarson úr Ljósfara, en hann lék einnig með Jóhönnu Elísu Skúladóttur, trommuleikari Músíktilrauna var Þórir Hólm Jónsson úr Mókrókum og hljómborðsleikari Músíktilrauna var áðurnefnd Jóhanna Elísa Skúladóttir. Rafheili Músíktilrauna var Darri Trygvason og textahöfundur Músíktilrauna var Agnar Dofri Stefánsson, eða Agnarsmár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert