„Held að þetta verk verði aldrei til friðs“

Rauð málning var máluð yfir nafn Tyrklands á minnisvarðanum og …
Rauð málning var máluð yfir nafn Tyrklands á minnisvarðanum og verkið tjargað og fiðrað. Ljósmynd/Aðsend

Hulda Hákon, listakona og höfundur listaverksins Tuttugu loga við Hótel Sögu, kveðst ekki munu kæra skemmdarverk á listaverkinu til lögreglu. Hún segir að ávallt muni standa styr um verkið og að landslagið í stríðstrekstri og alþjóðastjórnmálum hafi breyst frá því árið 2002, þegar verkið var afhjúpað.

Skemmdarverk voru unnin á verkinu í gær og rauð málning máluð yfir greypt nafn Tyrklands. Einnig var verkið tjaðrað og fiðrað og tjörubrúsum komið fyrir á tveimur af tuttugu logum sem tákna eiga NATO-þjóðirnar nítján og Rússland.

Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, kynnti verkið 15. maí árið 2002, en það var upphaflega gert í tilefni samstarfs Rússlands og NATO. Þá hafði ráðherrann átt fund með Ígor Ívanov, utanríkisráðherra Rússlands hér á landi af þessu tilefni. Utanríkisráðuneytið varð eigandi verksins, en umsjá þess og viðhald féll í skaut Reykjavíkurborgar.

Í tilefni af samstarfi NATO og Rússlands

„Verkið gerði ég af því tilefni að Rússar komu að borðinu hjá NATO, þannig var landslagið á þessum tíma. Á þessum tíma var friðvænlegt í heiminum þannig séð og fólk var ánægt með þessa ákvörðun Rússanna. Síðan þá hefur inntak verksins breyst og við ráðum engu um það,“ segir Hulda, en skemmdarverk hafa áður verið unnin á verki hennar.

Hulda kveðst ekki sár yfir skemmdunum.

„Ég á ekki verkið og þetta mál fer bara sína leið. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist, að verkið verði fyrir barðinu á einhverjum sem mótmæla. Þetta snertir mig alls ekkert. Einhvers staðar verður fólk að mótmæla og það hefur valið þennan stað til þess. Ég er hvorki döpur né reið yfir þessu,“ segir hún og bætir við að nú ríki mikil sorg vegna frétta af líklegu andláti Hauks Hilmarssonar sem barðist með hersveitum Kúrda í Sýrlandi.

Hulda segir að nýlega hafi verið gert við verkið og því aftur komið fyrir á flötinni við Hótel Sögu.

„Það er nýbúið að gera við verkið af því það er búið að fara illa með það gegnum tíðina. Það hefur áður verið málað og logarnir verið brotnir af því. Það eru nokkrir mánuðir frá því það var sett aftur niður eftir að það var lagað,“ segir hún.

Skemmdarverkin hafa stigmagnast

Hulda bendir á að brennisteinsmengun í lofti í Reykjavík hafi einnig valdið skemmdum á verkinu.

„Brennisteinninn í loftinu skemmir yfirborðið þannig það er erfitt að halda því góðu, logarnir eru úr bronsi. Það eru tvö önnur svona verk eftir mig í Noregi og Finnlandi, en þau eru stærri og veglegri. Verkið í Finnlandi er líka úr bronsi og þar eru logarnir póleraðir á tveggja ára fresti, þannig þeir eru alltaf gylltir. Ég skilaði verkinu þannig af mér hérna, en mengunin í loftinu sest fljótt á það og það er erfitt að verja það. Verkið í Noregi er svo úr stáli,“ segir hún.

Aðspurð segist hún ætla að mótmælendurnir þekki upphaflegt inntak verksins. Aðstæður hafi þó breyst. „Þau þekkja örugglega uppruna verksins en inntak þess hefur breyst í áranna rás. Þetta er NATO-minnisvarði og heimurinn er síbreytilegur,“ segir Hulda og nefnir að mótmælendurnir hafi gengið lengra en oft áður. Hingað til hafi aðeins rauð málning verið notuð.

„Nú hefur þetta stigmagnast en það truflar mig samt ekki. Það hlýtur að standa styr um þetta og af því verkið er sterk táknmynd NATO, þá er þetta svona. Ég held að þetta verk verði aldrei til friðs,“ segir Hulda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert