„Eintóm leiðindi“ á föstudaginn

Stemningin verður heldur lágstemmd á Dillon á föstudag.
Stemningin verður heldur lágstemmd á Dillon á föstudag. Ljósmynd/Hjalti St.

Boðið verður upp á drepleiðinlega dagskrá á viskíbarnum Dillon á Laugavegi 30 á föstudaginn langa. Samkvæmt lögum um helgidagafrið er skemmtun bönnuð þennan dag og ákváðu rekstraraðilar Dillon því að „bjóða upp á leiðindi“.

Hjalti St. Kristjánsson, rekstrarstjóri Dillon, segir að enginn dans né skemmtun verði umborin á Dillon á föstudaginn.

„Okkur langaði að hafa einhverja dagskrá þennan dag og þá verður hún bara að vera leiðinleg. Það er bannað að að standa fyrir skemmtunum,“ segir Hjalti.

Á Facebook vegna viðburðarins kemur fram að leiðinleg tilboð verði á barnum; bjór og ódýrt tequila á 937 kr. og tekið er fram að staðurinn á enga skiptimynt. Hægt verði að spila leiðinleg spil og ýmis kristileg tónlist verður spiluð allan daginn.

„Einnig munum við sýna kristilegar myndir, fólki til angurs og leiðinda,“ segir Hjalti.

Markmið laganna að tryggja frið, næði og hvíld

Í lögum um helgidagafrið kemur fram að eftirfarandi starfsemi er óheimil: „Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram.“

Markmið laganna er sagt til að vernda helgihald og til að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar innan þeirra marka er greinir í lögunum. 

Hörkutónleikar á miðnætti

„Við fengum Erp Eyvindarson með okkur í lið, lögðum höfuðið í bleyti og þetta var niðurstaðan; hafa ofan af fyrir fólki án þess að það sé gaman og án þess að fólk dansi,“ segir Hjalti en Erpur mun síðan skemmta fólki á slaginu tólf þegar blásið verður til skemmtilegra tónleika.

„Það verður mikið stuð fyrir þá sem hafa þolað daginn,“ segir Hjalti og bætir við að hann treysti sér ekki til að vera á Dillon allan föstudaginn sökum leiðinda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert