Gengið í snjókófi við Goðastein

Goðasteinn er í 1.557 metra hæð.
Goðasteinn er í 1.557 metra hæð. Ljósmynd/Tómas Guðbjartsson

Allt gekk að óskum í leiðangri fjallaskíðafólks úr Ferðafélagi Íslands sem fór á Eyjafjallajökul síðastliðinn sunnudag. Gengið var upp á jökulinn að norðanverðu, þar sem heitir Grýta, og farið að Goðasteini sem er í 1.557 metra hæð.

„Mestallan tímann var sól og nýfallinn púðursnjór. Strengur af suðaustri mætti okkur þegar upp á hábunguna kom og með vindkælingu fór gaddurinn í 23 stig. Þegar við komumst svo aðeins út úr kófinu á toppnum blasti við okkur stórkostlegt útsýni yfir Suðurlandið,“ segir Tómas Guðbjartsson læknir, sem var einn fjögurra fararstjóra. Alls tóku 37 manns þátt í ferðinni sem tók alls sjö klukkustundir en komið var niður svokölluð Smjörgil sem eru skammt frá Gígjökli sem er á leiðinni inn í Þórsmörk.

„Frá því ég hóf mína fjallamennsku hef ég haldið mikið upp á Eyjafjallajökul. Sá áhugi jókst til muna eftir eldgosið árið 2010, enda sýndi það að þetta er ekkert venjulegt fjall og kraftur þess er ótrúlega mikill,“ segir Tómas sem með Helga Jóhannessyni lögmanni fer fyrir fjallaskíðahópi FÍ. Er ýmislegt áhugavert á döfinni hjá þeim á næstunni, svo sem ferðir á Snæfell, Heklu og Hvannadalshnúk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert