Jarðstrengjakosturinn 5 milljörðum dýrari

Búið var að bjóða út framkvæmdina og niðurstaðan er vonbrigði …
Búið var að bjóða út framkvæmdina og niðurstaðan er vonbrigði fyrir Landsnet. Mynd úr safni. mbl.is/​Hari

„Þessi niðurstaða er klárlega vonbrigði fyrir okkur. Vinna við þessa línu er búin að standa yfir í langan tíma, hún er búin að fara í gegnum öll möt og leyfi og er á framkvæmdaáætlunum sveitarfélaganna,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.

Í frétt á vef Landsnets í dag er brugðist við þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að fella úr gildi framkvæmdaleyfi fyrirtækisins til lagningar Lyklafellslínu 1, sem veitt var af Hafnarfjarðarbæ síðasta haust. Þar segir að óhjákvæmilegt sé að úrskurðurinn þýði að frestun verði á framkvæmdum við Lyklafellslínu og tengdum framkvæmdum.

„Við vorum búin að bjóða út verkefnið og stóð til að hefja framkvæmdir núna í vor,“ segir Steinunn, en framkvæmdaleyfið var fellt úr gildi á þeim forsendum að ekki hafi verið sýnt nægjanlega fram á að jarðstrengskostir væru ekki raunhæfir og samanburður á umhverfisáhrifum þeirra og aðalvalkosti framkvæmdaraðila hafi ekki farið fram með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir.

Á vef Landsnets segir að jarðstrengskostir hafi verið skoðaðir og lagðir fram í ítarlegri skýrslu. Í þeirri skýrslu hafi komið fram að lagning jarðstrengja í vegstæði Bláfjallavegar væri tæknilega framkvæmanlegur kostur en rúmum 5 milljörðum dýrari en loftlína, eða fjórfalt dýrari.

„Í ljósi þess hversu viðkvæmt svæðið er, þ.á m. vegna vatnsverndar, var framkvæmdin vel undirbúin, farið í sérstakt áhættumat vegna vatnsverndar og ítarleg viðbragðsáætlun gerð,“ segir í frétt Landsnets. Þar segir jafnframt að samkvæmt raforkulögum og með hliðsjón af stefnu stjórnvalda um lagningu raflína í jörðu séu engir jarðstrengskostir sem komi til greina á þessari leið.

Ekki stefnan að leggja jarðstrengi í byggð

Að sögn Steinunnar hefur Landsnet hefur ekki skoðað þann möguleika að leggja Hamraneslínur í jörðu á núverandi legu þeirra, eins og náttúruverndarsamtökin sem kærðu veitingu framkvæmdaleyfisins hafa bent á að væri mögulegt. Það sé allt önnur framkvæmd og það sé ekki stefna Landsnets að leggja háspennulínur sem þessar í gegn um uppbyggð svæði.

Þessi skýringarmynd sýnir hvernig Hamraneslínur fara í gegn um uppbyggingarsvæðið …
Þessi skýringarmynd sýnir hvernig Hamraneslínur fara í gegn um uppbyggingarsvæðið í Skarðshlíð í Hafnarfirði. Skýringarmynd/Aðsend

Óvíst er í dag hvernig framhaldið verður, en Steinunn segir að næsta skref Landsnets verði að heyra í Skipulagsstofnun og meta hvað þau segja.

„Á þessari stundu er lítið hægt að segja um hvort við þurfum að byrja alveg frá byrjun eða hvort hægt sé að fara einhverjar aðrar leiðir. Það kemur í ljós í samtali okkar við Skipulagsstofnun,“ segir Steinunn.

Í niðurlagi fréttar Landsnets segir að skilvirkni laga og reglna sé ekki nægjanleg og að í þessu tilviki virðist sem samspil raforkulaga, laga um mat á umhverfisáhrifum og útgáfa framkvæmdaleyfa sé ekki nógu skýrt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert