„Bókanir hafa farið mjög vel af stað, en einungis standa u.þ.b. 600 stæði eftir sem farþegar geta tryggt sér,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.
Nýverið var þeim tilmælum beint til fólks sem hyggst leggja land undir fót um páskana og ferðast til og frá Keflavíkurflugvelli á eigin ökutæki að bóka bílastæði við flugstöðina fyrirfram.
Er það gert til að forðast það að fólk fái ekki stæði fyrir bíla sína þegar á flugvöllinn er komið, en í fyrra fylltust stæðin og olli það flugfarþegum töluverðum óþægindum. Í Morgunblaðinu í dag segir Guðjón allt útlit vera fyrir að stæðin fyllist einnig í ár. Þá segir hann mikilvægt að fólk leggi ekki bílum sínum við innganginn að brottfararsalnum.