Hafa enn ekki fengið handfarangurinn

Farþeginn hélt að flugmaðurinn væri að grínast þegar hann fór …
Farþeginn hélt að flugmaðurinn væri að grínast þegar hann fór að tala um maura. Mynd/WOW air

Farþegi sem var um borð í vél WOW air sem sett var í sóttkví við komuna til Montreal í Kanada á mánudagskvöld, vegna maura sem fundust í vélinni á leið frá Íslandi, fékk innritaða tösku sína ekki fyrr en rétt eftir hádegi í dag. Hann á hins vegar enn eftir að fá handfarangurinn, sem farþegum var fyrirskipað að skilja eftir í vélinni, ásamt yfirhöfnum.

Farþeginn segist ekki hafa fengið neinar upplýsingar frá WOW air um hvenær farangurinn væri væntanlegur eða hvar mætti nálgast hann, fyrr en einum og hálfum sólarhring eftir að vélin lenti í Montreal. Tilkynning kom um töskuna þegar blaðamaður mbl.is var að spjalla við hann í síma.

Maðurinn segir töluverð verðmæti vera í handfarangrinum, enda sé hann vanur að setja dýrari hluti þar. „Það hefði því verið betra að fá handfarangurinn fyrst.“

Í skriflegu svari WOW air við fyrirspurn mbl.is vegna málsins í morgun kom fram að farþegar hefðu fengið upplýsingar um hvar mætti nálgast farangurinn skömmu eftir lendingu á mánudagskvöld, og að hægt hefði verið að nálgast hann nokkrum klukkutímum síðar. Farþeginn segir þetta ekki alls kostar rétt.

„Það er bara kjaftæði. Það fékk enginn farangurinn um kvöldið. Ég hringdi í WOW air í morgun og þegar ég náði inn fékk ég þær upplýsingar að þeir væru að fara að hringja til Montreal til að finna út hvernig þetta stæði allt saman. Það virtist enginn vera að fylgjast með þessu þar heldur.“

„Þetta voru einhver lítil kvikindi“

Eftir að vélin lenti í Montreal á mánudagskvöld tók við þriggja tíma bið á meðan landamæraeftirlit í Kanada lagði mat á stöðuna, að sögn farþegans. „Við vissum í raun ekki hvort við fengjum að fara inn í landið eða hvort við þyrftum að fara aftur til Íslands. Svo var okkur fyrirskipað að skilja allt eftir í vélinni nema farsíma, fartölvur, passana okkar og veski. Annað þurftum við að skilja eftir í sætunum okkar, þar á meðal yfirhafnir. Okkur var sagt að það yrði komið með þetta.“

Hann segir alla farþega hafa verið látna fylla út skýrslu eins og fyrir tapaðan farangur. „Við fengum hins vegar engar upplýsingar um hvenær við mættum búast við töskunum. Við erum í landi þar sem er tveggja stiga frost og við erum ekki einu sinni með  yfirhafnir. Við vitum ekki einu sinni hvenær það verður gengið frá þessu.“

Hann segir það hafa skotið skökku að sjá flugáhöfnina vera með sínar yfirhafnir og töskur þegar hún kom út úr vélinni. „Það virtist ekki gilda það sama um þau, sem er frekar asnalegt. Konan mín er bara á þunnri blússu og ég á peysunni, og fullt af öðrum farþegum. Sumir voru bara á bolnum.“

Farþeginn segist ekki hafa orðið var við uppnámið sem varð þegar einhverjir farþegar urðu fyrst varir við maurana, enda hafi þau setið framarlega í vélinni. „Þegar við vorum að nálgast Montreal þá var flugmaðurinn að tala um þetta. Við héldum bara að hann væri að grínast, en svo varð þetta meira og meira mál. Við sáum flugþjóna fara aftur í vélina og koma til baka með plastglös með einhverju í. Þetta voru einhver lítil kvikindi því við sáum aldrei hvað þetta var.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert