Á ævintýraslóðum í 18 ár

Dario og Sabine ásamt börnum sínum sex og kennaranum Mirjam, …
Dario og Sabine ásamt börnum sínum sex og kennaranum Mirjam, á Akureyri í vikunni þegar þau fluttu í sjötta skipti á einum mánuði. Þau hafa ekki getað búið í skútu sinni eftir að hún skemmdist í aftakaveðri í haust. mbl.is/Skapti

Átján ár eru síðan Sabine og Dario Schwörer lögðu upp í langferð tvö saman. Fararskjótarnir voru tveir jafnfljótir, reiðhjól og skúta. Síðan hafa þau búið um borð, siglt um öll heimsins höf, hjólað mörg þúsund kílómetra, klifið hæstu tinda allra heimsálfa nema einnar og frætt um 120.000 börn í skólum víðs vegar um heim um umhverfismál. Að auki hafa þau eignast sex börn sem alin eru upp um borð í skútunni. Yngsta barnið kom í heiminn í ágúst í fyrra á Akureyri, þar sem fjölskyldan hefur vetursetu.

Þrautseigja og samstaða

Eftir að hafa kynnst hjónunum, rætt mikið við þau og börnin, skoðað ljósmyndir og kvikmyndir sem þau hafa tekið á síðustu 18 árum, lesið dagbækur þeirra og skýrslur, er ómögulegt annað en heillast. Ferðalagið hefur ekki alltaf verið dans á rósum; veður eru oft válynd, sannarlega ekki alltaf gott í sjóinn og margir þrautir þurft að leysa en þolinmæðin og samstaðan er með ólíkindum. Þrautseigjan mikil og sannarlega aðdáunarverð.

Salina, Andri og Noé þegar þau gengu á Hvannadalshnjúk, með …
Salina, Andri og Noé þegar þau gengu á Hvannadalshnjúk, með föður sínum í fyrrasumar. Noé var þeirra yngstur, aðeins sjö ára! mbl.is

Sumum þykir hjónin reyndar ansi fífldjörf að þvælast með þessum hætti um heiminn með börn sín en þau Dario og Sabine segjast þvert á móti hvergi upplifa sig öruggari en á hafi úti eða á litlum, afskekktum stöðum.

„Staðreyndin er sú að á hafinu eða fámennum stöðum eru ekki margir á ferli, eins og nærri má geta og hætta á óhöppum því minni en annars staðar. Þegar maður hefur búið í átján ár utandyra má í raun segja að náttúran sé orðinn vinur og börnin læra á hana. Gott dæmi er hvernig þau skynja að veðrabreytingar eru í vændum þegar fuglar haga sér öðru vísi en áður eða skýin breytast. Þá gefst tími til að taka niður segl og búa sig undir slæmt veður. Við erum örugg í bátnum því hann er þannig úr garði gerður að þótt honum hvolfi endar hann á réttum kili.“

Það hefur reyndar aldrei gerst.

Mikil bílaumferð martröð

„Um borð í bátnum getum við líka verið viss um að börnin fara ekki neitt og eru því örugg! Þegar við komum hins vegar til Reykjavíkur eða annarra borga þar sem höfnin er nálægt miklum umferðargötum erum við logandi hrædd. Börnin eru ekki vön bílum og þung umferð því martröð fyrir okkur.“

Sabine og fjögur barnanna, Andri, Salina, Alegra og Noé, á …
Sabine og fjögur barnanna, Andri, Salina, Alegra og Noé, á Galapagos í Kyrrahafinu, vestan Ekvador fyrir nokkrum árum. mbl.is

Sabine er menntuð hjúkrunarkona en Dario loftslagsfræðingur og alþjóðlegur fjallaleiðsögumaður. Bæði unnu við sitt fag heima í Sviss þegar hugmynd kviknaði um ferðalagið. Fjöllin voru vinnustaður Darios og vegna hlýnunar jarðar og augljósra loftslagsbreytinga langaði þau að leggja sitt af mörkum til að heimsbyggðin áttaði sig á þróuninni.

„Ráðstefnur eru haldnar reglulega og margar mjög góðar – til dæmis í Reykjavík, þar sem mér bauðst að flytja erindi síðastliðið haust. Á ráðstefnum víða um heim er mikið er talað en mér fannst þurfa að taka til hendinni; að sýna þyrfti í verki væntumþykju fyrir náttúrunni og hvetja fólk til dáða varðandi loftslagsmál,“ segir Dario.

Rökræður við mannætur í suðurhöfum

Dario, Sabine og elstu börn þeirra tvö, Salina og Andri, segja blaðamanni Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins frá ýmsum ævintýrum. Sem dæmi má nefna að þar ber á góma samtöl við mannætur í Suðurhöfum um mismunandi siði og venjur og einnig hermir af sögulegri siglingu þeirra Norðvestur-leiðina sem svo er kölluð; frá Kyrrahafi norður um og að Atlantshafi. Þó fóru þá leið sem aldrei hafði áður verið farin á báti.

Sabine, Dario og börnin í Bandaríkjunum þar sem þau hjóluðu …
Sabine, Dario og börnin í Bandaríkjunum þar sem þau hjóluðu um í nokkra mánuði og bjuggu í tjöldum fyrir nokkrum árum, á meðan seglskúta þeirra var í viðgerð. mbl.is

Fjölskyldan heldur úti mjög fróðlegri heimasíðu - Top to Top - þar sem sjá má mikið af ljósmyndum og myndböndum frá ferðalaginu og finna alls kyns fjölbreyttar upplýsingar að auki. Þar er einnig hægt að styrkja verkefnið með fjárframlögum. 

Nánar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert