Styðja kjarabaráttu ljósmæðra

Ljósmæður hafa verið samningslausar frá því í ágúst í fyrra.
Ljósmæður hafa verið samningslausar frá því í ágúst í fyrra. mbl.is/Eggert

Stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna hefur sent frá sér ályktun til stuðnings kjarabaráttu ljósmæðra.

Þar kemur fram að ljósmæður séu elsta menntaða kvennastétt landsins. Þær sinni grunnþjónustu sem allir landsmenn njóta góðs af á einn eða annan hátt einhvern tímann á lífsleiðinni.

„Starf ljósmæðra þarf að meta að verðleikum og nauðsynlegt er að tryggja nýliðun í þessari mikilvægu stétt,“ segir í ályktuninni.

Einnig kemur fram að það sé stefna sambandsins að nemar skuli ávallt fá greitt þegar starfsnám er til jafns við hefðbundna vinnu og ótækt að hjúkrunarfræðingar þurfi að taka á sig launalækkun við að bæta við sig ljósmæðranámi.

Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður SUF, segir í tilkynningu að það hafi verið einhuga samþykki innan stjórnar SUF að sýna ljósmæðrum stuðning í sinni kjarabaráttu. „Það er okkar stefna að þær stéttir og þau störf í samfélaginu sem að koma að umönnun og uppeldi séu metin til samræmis við mikilvægi þeirra, ljósmæður eru ein af þessum stéttum,“ segir Sandra Rán í tilkynningunni.

Ályktunin í heild sinni:

„Stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna styður heilshugar við kjarabaráttu ljósmæðra. Ljósmæður eru elsta menntaða kvennastétt landsins og sinna grunnþjónustu sem allir landsmenn njóta góðs af á einn eða annan hátt einhverntímann á ævinni.

Ljósmæðranám er 6 ára háskólanám á Íslandi. Fyrst ljúka ljósmæður hjúkrunarfræðinámi áður en þær fara í tveggja ára ljósmæðranám. Að því loknu lækka þær í launum og í starfsnáminu eru þær launalausar.

Stefna Sambands ungra Framsóknarmanna er að nemar skuli ávalt fá greiðslur í starfsnámi þar sem þeir þurfa að vinna hefðbundna vinnu og að nemar séu tryggðir í störfum sínum. Starf ljósmæðra þarf að meta að verðleikum og nauðsynlegt er að tryggja nýliðun í þessari mikilvægu stétt.

Stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna telur mikilvægt að hugað sér að þeim stéttum sem koma að umönnun og uppeldi í samfélaginu og að störf þeirra og ábyrgð séu metin til samræmis við mikilvægi þeirra. Því hvetur stjórnin þess að nám og ábyrgð ljósmæðra verði metið að verðleikum við samningagerð við stéttina.”

mbl.is

Bloggað um fréttina