Hross með úr sér vaxna hófa

Hófar hestins eru eins og sjá má á þessari myndir …
Hófar hestins eru eins og sjá má á þessari myndir verulega úr sér vaxnir. mbl.is

Eiganda útigangshross á bæ í Skaftárhreppi hefur verið gert að bæta umhirðu dýrsins, sem er með mikinn ofvöxt í hófum, ellegar aflífa það strax. Mögulegt er að hesturinn sé með svokallaða hófsperru, nokkuð algengan sjúkdóm sem getur orðið mjög alvarlegur sé ekkert að gert. Hófsperra getur verið afar kvalafull og leiðir í verstu tilfellum til þess að hesturinn fær sig ekki hreyft. Sé sjúkdómurinn langt genginn er hann ólæknanlegur. Dýralæknir sem mbl.is ræddi við segir að af myndum að dæma þyki sér augljóst að hrossið þjáist þar sem fótastaða þess sé orðin kolröng.

Mbl.is fékk sendar myndir af hestinum og fylgja þær þessari frétt. Eins og sjá má á þeim eru hófar hans verulega úr sér vaxnir. Um eitt og hálft ár er liðið frá því að fólk í sveitinni segist fyrst hafa vakið athygli yfirvalda á málinu. Ekki hefur þó viðbragða orðið vart fyrr en nú. 

Hjalti Andrason, upplýsingafulltrúi Matvælastofnunar, segir að ábending um ástand hestsins hafi borist stofnuninni skömmu fyrir páska. Hann segist ekki geta staðfest að ábendingar hafi borist fyrr þar sem hann náði ekki sambandi við héraðsdýralækni á staðnum er mbl.is leitaði svara vegna málsins í morgun.

Hrossið gengur úti árið um kring og segir dýralæknir sem …
Hrossið gengur úti árið um kring og segir dýralæknir sem skoðaði myndir af því að fótastaða þess sé orðin kolröng.

Hjalti segir að litið sé á málið sem alvarlegt frávik. Því hafi dýraeftirlitsmaður þegar haft samband við umráðamann hestsins og krafist þess að hann snyrti hófa hans eða felli hann. 

Ekki er tiltekið hversu langan frest eigandinn fær til að taka á málinu en Hjalti segir að krafist sé úrbóta strax og að málinu verði fylgt eftir.

Það skal tekið fram að MAST segist ekki geta fullyrt að svo stöddu að hesturinn sé með hófsperru. Dýralæknir hafi ekki skoðað hann.

Kolröng fótastaða

„Þarna erum við að tala um vöntun á hófhirðu,“ segir Sveinn Ólason, dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands, sem mbl.is bar myndirnar af hestinum undir. Hann segir fótastöðu hestsins orðna kolranga og að hann líði fyrir það. Af myndunum að dæma sé næsta víst að hann þjáist enda álag á sinar og neðstu liði fótanna skakkt.

Sé hann með hófsperru gæti það mögulega skýrt hraðan vöxt hófsins. „Ég myndi fella þennan hest,“ segir hann. 

Sveinn segir að hófsperra sé læknanleg á vissum stigum en talið er að ein orsök sjúkdómsins sé snögg fóðurbreyting. 

Getur verið ólæknanleg

Hófsperra er kvikubólga í hófnum sem veldur því að það losnar um hófbeinið. „Ef hófbeinið færist mjög mikið þá getum við verið að tala um varanlegan skaða. Mjög slæm tilfelli eru ólæknanleg,“ segir Sveinn.

Hann segir að yfirleitt taki langan tíma þar til hófsperra verði svo slæm og sé gripið inn í tímanlega megi með réttri fóðrun, hirðu, bólgueyðandi og verkjastillandi lyfjum koma hestinum til góðrar heilsu á ný.

Hófsperra er að verða algengari sjúkdómur í íslenskum hrossum en áður og er talið að það tengist breyttri fóðrun þeirra. „Það er algengara í dag að við séum að eiga við of feita hesta en of horaða,“ segir Sveinn. Í raun sé um velmegunarsjúkdóm að ræða. Hestar hafi aðgang að orkumiklu fóðri en fái ekki nægilega hreyfingu og fitni og geti þá þróað með sér hófsperru. Hún geti svo aftur valdið ofvexti í hófum. „Ef hófhirðu er ekki sinnt þá lendum við í svona ástandi eins og við erum að sjá þarna.“

Hér er grein á vef Hestafrétta um hófsperru, orsakir hennar og afleiðingar.

mbl.is