Mjög sjaldgæft að svona máli komi upp

Barnið var bitið í Kópavogi á föstudaginn langa.
Barnið var bitið í Kópavogi á föstudaginn langa. mbl.is/Hjörtur

Mjög sjaldgæft er að jafnalvarleg mál og þegar barn var bitið illa af hundi í Kópavogi á föstudag komi á borð Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar, Kópavogs og Garðabæjar.

Þetta segir Guðmundur Einarsson, framkvæmdastjóri stofnunarinnar.

Hann veit ekki hvenær mál í líkingu við þetta kom síðast upp. Oftast koma upp mál sem kallast ógnun eða árás þar sem hundur glefsar í klæðnað.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði eftir því að stofnunin rannsakaði málið sem kom upp á föstudag. „Þegar mál koma til okkar verðum við að skoða allar hliðar á þeim, tala við þá sem voru á vettvangi og svo getum við tekið ákvörðun,“ segir Guðmundur.

„Okkar hlutverk er að sjá til þess að þetta endurtaki sig ekki.“

Hann nefnir að meinlausustu dýr geti verið hættuleg og það sé alltaf á ábyrgð eigandans að passa dýrið sitt. Bendir hann á 11. grein samþykktar um hundahald í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Kópavogi og Hafnarfirði í því samhengi.

Meinlausustu dýr geta verið hættuleg

Fram kom í frétt mbl.is um barnið sem var bitið að póstburðarmaður hafi áður verið bitinn af sama hundi.

Guðmundur segir að ef póstburðarmaður er bitinn, eða aðrir starfsmenn, séu þeir beðnir um að tala við sinn yfirmann. Fyrirtækið myndi í framhaldinu tilkynna heilbrigðiseftirlitinu formlega um atvikið. Guðmundur kveðst ekki sjá í fljótu bragði að Pósturinn hafi gert það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert